Haustið í förðunarlínunni frá Christian Dior er skemmtilega blátt. Blátt og djarft og á sama tíma verulega glamúrus.
Innblástur línunnar er sóttur til 70’s áranna þegar línur voru skarpar og tískan með dularfullu, kvenlegu en á sama tíma sterklegu yfirbragði og allir voru á kafi í diskóstemmningu (sjáðu fyrir þér Biöncu Jagger). Það þýðir að áherslan á smokey augnförðun er mikil og varirnar eru ýmist fölar eða náttúrulegar á ljósri húð.
Ég var að fá á borð til mín þrjú “item” úr þessari línu. Blátt naglalakk nr 607 Blue Denim, varalit nr. 741 Rose Allegro og Augnskuggapallettuna 481 Smoky Khaki.
Þetta eru skemmtilegar vörur frá DIOR, öðruvísi og svolítið spennandi. Blái liturinn vísar til upprunans en Christian var m.a. þekktur fyrir að segja að blái liturinn kæmist næst þeim svarta í fullkomnun. Árið 1949 sendi hann frá sér hinn fræga Junon kjól þar sem blár og grár blönduðust saman en með því varð blái liturinn samnefnari með því sem kom frá DIOR.
AUGU: Augnskuggapallettan í þessari haustlínu er mjög skemmtileg. Hún er með þremur litum sem allir eru sérlega valdir til að gera smokey augnförðum. Hver litur er merktur með litlu plasti sem liggur yfir og það auðveldar notandanum förðunina. Þeir eru fallega brúnir og “base” liturinn er með virkilega fallegri gylltri sanseringu. Hönnun umbúðanna er ný af nálinni en þú rennir augnskuggunum út á einskonar sleða og þá poppar spegillinn upp í leiðinni. Mjög hentugt ef þú ert t.d. að mála þig í ljósinu við gluggann.
VARIR: Varaliturinn er þéttur í sér og helst vel á en er á sama tíma mjög náttúrulegur þegar hann er komin á. Liturinn er svona dökkbleikur og út í beige, mjög eðlilegur og fallegur litur, góð lykt af honum og góð tilfinning þegar hann er komin á.
NEGLUR: Svo er það naglalakkið bláa. Þetta er skemmtilega “öðruvísi” litur í litaflórunni sem er svo vinsæl um þessar mundir. Það er ákveðinn klassi yfir honum og lakkið sjálft hefur einstaklega flottan glans. Það er mjög auðvelt að bera það á enda er burstinn stuttur og breiður og þannig alveg frábær í verkið.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.