Litskrúðugir augnskuggar geta virkilega lífgað upp á útlitið. Guerlain kom nýlega á markað með eitt það fallegasta augnskuggabox sem ég hef augum litið en litapalettan er með 6 flottum augnskuggum saman í boxi sem býður upp á óteljandi möguleika í litasamsetningum. Augnskuggabursti með burstum í báða enda og spegli sem opnast til hliða, silfurlitað lokið er fallega útskorið og þegar þú heldur á boxinu þá lítur það út eins og fagur skartgripur, flott sígarettubox eða erfðagripur. Mjög kúl.
Augnskuggaboxið frá Guerlain heitir 2 Place Vendóme en Place Vendóme er nafn götunnar sem ein af verslun Guerlain stendur við í Paris.
Litapalettur eru fimm, allar með fallega litablöndu og því ætti ekki að vera erfitt fyrir pjattrófur að finna augnskuggabox með liti sem eiga eftir að heilla gjörsamlega. Augnskuggaboxin heita reyndar öll eftir götum sem Guerlain verslanir standa við í París.
Boxið er frekar þungt þannig að það hentar ekki alveg til að bera í töskunni daglega og verður geymt heima á snyrtiborðinu enda algert listaverk í sjálfu sér. Guerlain teymið fékk hina virtu India Mahdavi hönnuð -og arkitekt í samstarf við sig til að hanna umbúðirnar. Þar af leiðandi er augnskuggaboxið mjög eftirsótt af söfnurum og aðdáendum India Mahdavi.
Litapalettan er mjúk og haustleg og litirnir annaðhvort mattir eða glansandi. Því er vel við hæfi að blanda þeim saman. Förðunin getur verið bæði mött og glansandi það fer eftir litum og stemmningu, hvort þú kýst létta og náttúrulega dagförðun eða smokey fyrir kvöldið.
Eins og sést hefur á tískupöllunum í haust þá er allt í gangi þegar kemur að förðun og fatnaði og hver og einn getur skapað sinn stíl. Augun eru til dæmis mjög flott tvítóna; tveir litir af augnskuggum sem má bera á marga vegu. Og mikið er um í vetur að bera t.d. ljósan sanseraðan augnskugga yfir augnlokið og annan mattan dekkri lit út í endana og undir augun. Augun eru síðan innrömmuð með dökkum augnblýanti inní vatnslínuna bæði uppi og niðri.
Díana Bjarnadóttir útlitsráðgjafi og stílisti hefur margra ára reynslu við að aðstoða fólk með fataval. Hún starfaði meðal annars á Ítalíu og í London þar sem hún var stílisti stjarnanna hjá Giorgio Armani og Gucci.
Hefur einnig verið búsett í svíþjóð, Hollandi og á Selfossi en býr nú í Reykjavik. Díana er einnig með menntun í förðunarfræði. Greinar og ljósmyndir Díönu hafa m.a. verið birtar í tímaritunum Veggfóður, Ský og Smáralindarblaðinu. Díana er fædd 1. maí og er því naut.