Ég skrapp í Smáralindina um daginn, var að kaupa mér skó, þegar ég gekk fram hjá Sushi gryfjunni og ákvað að skella mér á nokkra sushi bita.
Ég verð nú að segja að þessi staður kom heldur betur á óvart! Sushi-ið var fallega framreitt, ferskt og bragðgott.
Ég skrapp til Kanada um daginn og bragðaði besta sushi sem ég hef smakkað á minni sushi lífstíð og í augnablik þegar ég stakk fyrsta maki bitanum upp í mig sitjandi á Sushi gryfjunni, þá tókst mér að ferðast alla leiðina til Kanada og aftur upp í Smáralind í einum bita.
Það skemmdi ekki fyrir að þjónustan var frábær og sýndi afgreiðslustúlkan mér einstaka þolinmæði þegar ég stóð örugglega í tíu mínútur yfir matseðlinum og var að reyna að ákveða mig. Hún brosti bara allan tímann og svaraði öllum spurningunum sem dundu yfir hana.
Ég á klárlega eftir að fara aftur á Sushi gryfjuna, það er ekki spurning!
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.