Undanfarin ár hefur blár augnskuggi þótt frekar hallærislegur og blái liturinn tengdur liðinni tíð í förðunarstraumum.
Í vor urðu bláir augnskuggar hinsvegar mjög áberandi á tískupöllunum og á forsíðum tískutímarita. Stjörnurnar ekki lengi að grípa trendið og nú sjást þær varla án þess að vera með bláan augnskugga úti á lífinu enda blái liturinn flottur og rokkaður.
YSL Pure Chromatics Wet and Dry Eye shadow er fjögurra lita augnskuggapalletta með mjúkum bláum og brúnum tónum.
Eins og nafnið gefur til kynna er hægt að nota augnskuggana á tvenna vegu en litirnir mynda ótrúlega fallega áferð þegar þeir blandast við vatn.
Vatnið breytir púðrinu í kremaða og mjúka áferð sem auðvelt er að blanda og helst augnskugginn þá fullkomlega á augnsvæðinu. Ég hef snarfallið fyrir bláa litnum og finnst hann fullkomin með brúnu litatónunum.
Ég skora á þig að prófa þetta næst. Blautur augnskuggi gefur ótrúlega smart áferð og það er gaman að geta valið um það hvort maður ætlar að nota hann þurran eða blautan.
Smelltu HÉR til að skoða mynd af pallettunni.
Díana Bjarnadóttir útlitsráðgjafi og stílisti hefur margra ára reynslu við að aðstoða fólk með fataval. Hún starfaði meðal annars á Ítalíu og í London þar sem hún var stílisti stjarnanna hjá Giorgio Armani og Gucci.
Hefur einnig verið búsett í svíþjóð, Hollandi og á Selfossi en býr nú í Reykjavik. Díana er einnig með menntun í förðunarfræði. Greinar og ljósmyndir Díönu hafa m.a. verið birtar í tímaritunum Veggfóður, Ský og Smáralindarblaðinu. Díana er fædd 1. maí og er því naut.