Baðherbergi umbreytt á einni helgi

Baðherbergi umbreytt á einni helgi

Ég var alveg komin með fagurfræðilegt ógeð á agnarsmáa baðherberginu mínu þegar ég ákvað að taka það í gegn fyrir nokkrum mánuðum. Mér fannst allt of mikill 2000 bragur á þessu enda átti síðasta yfirhalning sér stað í kring um aldamót og beige litaðar flísarnar alveg í þeim stíl. Svo var margt einfaldlega farið að láta á sjá, eins og t.d. spegillinn fyrir ofan vaskinn og blöndunartækin.
Markmiðið hjá mér var fyrst og fremst að hafa þetta bæði fljótlegt og ódýrt svo ég gerði þetta meira eða minna allt sjálf eins og nútímakonu sæmir. Youtube er jú uppspretta fróðleiks.

Eftir töluverða rannsóknarvinnu komst ég að því að það væri sniðugast fyrir mig að mála flísarnar á veggnum. Ég brunaði því í verslunina Sérefni sem hefur alltaf reynst vel og fékk málningu og ítarlegar leiðbeiningar um framkvæmdina hjá þeim. Fyrir valinu varð mjallahvít háglans málning fyrir flísarnar og dimmblá mött málning á veggi.

Hvað gólfið varðar þá var ég alltaf hálf tvístígandi með að mála flísarnar enda yrði það bæði kalt og sleipt og leiðinlegt að þrífa það. Niðurstaðan varð því að ég keypti bara gólfdúk og er algjörlega himinlifandi með þá lausn.

Gólfdúkinn fékk ég í versluninni Álfaborg og hann kostaði um 15.000 kr með dúkalíminu og borðunum sem eru límdir upp á vegginn við samskeytin.

Mér finnst útkoman á flísunum alveg frábær. Margir halda að flísamálning endist ekki vel en það er ekki mín reynsla. Það sér ekki á þeim eftir nokkra mánuði og ef málningin fer eitthvað að flagna þá er minnsta mál að rúlla bara einni umferð yfir.

Ég ákvað að skipta út speglinum enda var þessi gamli farin að láta á sjá. Fallega hvíta spegilinn fékk ég á litlar 3000 kr í Rúmfatalagernum. Taktu eftir því hvernig dökka málningin rammar hornið skemmtilega inn.

Hér sést veggurinn sem snýr að baðkarinu. Dimmblái liturinn fer einstaklega vel við svarthvíta gólfdúkinn. Myndin af sæta parinu Liz Taylor og Richard Burton er æði en hana fann ég í ljósmyndabók af frægum pörum sem ég keypti á 500 kall í Hertex.

Smáatriðin eru í raun aldrei smáatriði þegar kemur að hönnun. Ég skipti um blöndunartæki, fékk þessi á um 20.000 kr í Bauhaus, og keypti líka nýjan hurðarhún í stíl við stemmninguna sem ég sé fyrir mér sem svona klassískan enskan/franskan stíl.

Dimmbláu klukkuna, sem fellur alveg inn í litinn á veggnum fékk ég í IKEA, og fallega myndin af Monroe og Miller er úr Hertex bókinni góðu. Stytturnar sem geyma skartið eru svo bara eitthvað sem hefur alltaf fylgt mér.

Sjálf er ég mjög sátt við útkomuna þó ég taki mig kannski einhverntíma til og skipti málingunni og dúknum út fyrir alvöru flísar.

Share on facebook
Deila á Facebook
Share on twitter
Deila á Twitter
Share on pinterest
Deila á Pinterest