
Pjatt.is leit dagsins ljós í byrjun febrúar 2009 og hét þá Pjattrófurnar – með slagorðinu „Aðlaðandi er konan ánægð” eftir samnefndri bók leikkonunnar Joan Bennett sem starir þarna fram fyrir sig á meðfylgjandi mynd af upprunalegu bókinni sem kom út í Bandaríkjunum 1945.

Á því herrans ári 2009 var ekkert sérstakt afþreyingarefni fyrir konur á netinu, að frátöldu Femin.is sem þá var fyrst og fremst starfrækt sem vefverslun.
Þetta þótti undirritaðri ærið tilefni til að fara af stað með blogg þar sem sérlegum áhugamálum kvenna væru gerð skil og um leið beina orðum að kvenfólki (og kannski kvenlegum karlmönnum) – án allra málamiðlana.
Bloggarar Pjattsins skyldu vera pjattaðir feministar sem elska bæði há – og lágmenningu og allt þar á milli en þó aðallega það sem gerir heiminn örlítið betri, hvort sem er með fegurð eða meðalvilltri fágun.
Ásamt undirritaðri voru fyrstu pjattrófurnar þær Guðný Hrönn Antonsdóttir, Díana Bjarnadóttir, Guðrún Gunnarsdóttir, Stella Björt Bergmann og Vala Árnadóttir. Sjálf var ég eiginlega bara tölvu – og fjölmiðlanörd en hinar stóðu fyllilega undir nafni sem Pjattrófur, allt fegurðardrottningar, fyrirsætur og tískufrömuðir par ex. Guðný starfar nú sem ritstjóri hjá Vísi, Díana er stílisti og starfsmaður hjá húsgagnaversluninni Vogue, Guðrún flytur inn DIM sokkabuxur, Stella er verslunarstjóri hjá Spútnikk en Vala starfar sjálfsstætt sem framleiðslustjóri fyrir fatahönnuði.

Slitum sambúðinni
Til að byrja með voru Pjattrófurnar með aðsetur á Blogspot en ekki leið á löngu þar til Guðmundur Magnússon, þáverandi ritstjóri, bauð okkur að ganga til liðs við bloggarana á Eyjunni.
Við prófuðum það, og áttum sæti á forsíðunni með Agli Helgasyni í nokkur ár en fluttum svo yfir á DV.is þegar Eyjan var seld á sínum tíma.
Sambúðinni með DV lauk nokkuð fljótt árið 2013 og síðan hefur Pjatt.is verið alfarið sjálfsstæður miðill enda kunna sumar stelpur bara best við að vera sóló *hóst*.
Fjölbreytt samstarfsverkefni
Í þessi ár sem Pjatt.is hefur verið í loftinu höfum við brallað ýmislegt. Til dæmis…
- Haldið sjálfsvarnarnámskeið fyrir konur í samvinnu við Mjölni.
- Skipulagt Dekurhelgi á Hótel Flúðum.
- Skipulagt flamenco ferð með VITA til Sevilla á Spáni.
- Haldið fjöldan allann af boðum og veislum í samstarfi við fjölmörg fyrirtæki og fyrir okkur sjálfar.
- Fjallað um fjölda veitingahúsa og unnið að kynningarsamstarfi með þeim.
- Fundið upp orðið „gjafaleikur” í þeim tilgangi að fjölga fylgjendum á FB og haldið úti ótal slíkum leikjum fyrir okkur sjálfar og stór og smá fyrirtæki í landinu.
- Framleitt myndbönd og margskonar kynningarefni, til dæmis fyrir Nike, Bláa Lónið, Snyrtistofuna Garðatorgi, Icepharma ofl. ofl.
Umfjallanir
Frá fyrsta degi hafa Pjattrófurnar skrifað mikið um vörur og þjónustu sem höfðar sérstaklega til kvenna og þá yfirleitt það sem okkur líkar virkilega vel en á þeim forsendum má segja að þetta blogg hafi byrjað fyrir rúmum áratug.
Semsagt – okkur langaði til að deila því sem okkur fannst ýmist gott eða skemmtilegt og miðla þessum upplýsingum í gegnum bloggið og samfélagsmiðlana (word of mouth).
Um leið vildum við vera jákvæðar, uppbyggilegar og hressar og koma með frískandi kvenorku inn í netheimana sem voru þá afar karllægir (og jú, auðvitað þóttu okkur búdrýgindin ekki verri).
Það er óhætt að segja að þetta módel hafi fallið í kramið því ekki leið á löngu þar til ótal vefir tóku að spretta með Pjattið sem einhverskonar fyrirmynd, sumir sjálfstæðir og aðrir í bandalagi við stærri fjölmiðla. Sumt hefur dafnað og annað ekki, – svona eins og gengur, en Pjattið er alltaf á sínum stað þó bloggvirknin sé mismikil – enda höfum við kvenmenn alltaf í svo mörgu öðru að snúast sjáðu til.


Like hnappurinn og Facebook fyrirtækjasíður
…komu til sögunnar nokkrum dögum áður en Pjattið fór í loftið í febrúar 2009 og eins og fyrr segir sá ég strax ástæðu til að efla miðilinn á þessum vettvangi enda samfélagsmiðlar frábær viðbót fyrir bloggara í tjáningarþörf sem vilja ná til áheyrenda sinna eftir sem flestum leiðum.
Ég fékk þá stórgóðu hugmynd að efna til gjafaleikja svo að hægt væri að fjölga í Facebook partýinu okkar en fyrirmyndina hafi ég frá bókaklúbbum sem lengi voru starfræktir á Íslandi. Þá bauðst fólki t.d. útvarpsvekjaraklukka eða VHS spóla fyrir að skrá fimm vini í klúbbinn.
Hví ekki að prófa það sama fyrir samkvæmið á Facebook?!
Það má segja að hugmyndin hafi virkað nokkuð vel.
Með pjattkveðju!
Margrét H. Gústavsdóttir