Tæknióða Pjattrófan fjárfesti í iPad 3 síðasta föstudag og hef ég varla litið upp úr tækinu síðan.
Töluverð eftirvænting hefur verið eftir þessu tæki á íslenska markaðinn og haf verið gerðar miklar væntingar. Ég fór í hádeginu á föstudaginn sótti gripinn upp í Buy.is, tók hann með mér í vinnuna og var gaman að því hvernig karlmennirnir sópuðust að mér, allir spenntir að sjá nýja dótið.
SKJÁRINN OG MYNDAVÉLIN
Það er töluverður munur á skjánum á iPad 2 og iPad 3 en stafir og myndir miklu eru skarpari og skýrari á nýja tækinu. Einnig er myndavélin ótrúlega góð og nær mjög góðum myndum. Ég gerði samanburð á myndunum á iPad 2 og 3 og get ég fullyrt að kaupendur nýja iPaddsins verða ekki fyrir vonbrigðum með hana.
Þar sem ég hef aldrei átt iPad áður er ég búin að vera missa mig að ná mér í forrit og eru nokkur mjög skemmtileg öpp komin inn í tækið.
TEIKNIFORRIT
Þar sem mér finnst ofsalega gaman að teikna, keypti ég mér forrit sem heitir SketchBook en það er teikniforrit sem bíður upp á ótrúlega möguleika og hékk ég í forritinu í þrjá tíma í gær að teikna og leika mér. Myndin sem fylgir þessum pistli er mynd sem er gerð í forritinu og finnst mér nú ótrúlegt hversu vel heppnaðist svona miðað við að ég var bara að fikta.
UPPGÖTVAÐU FLEIRI FORRIT
Ég fann einnig forrit sem heitir Discovr Apps en það er forrit sem hefur hjálpað mér töluvert að finna ný öpp sambærileg þeim sem ég upphaflega leitaði að. Þú byrjar á því að slá inn t.d. Instragram, Discovr Apps finnur Instagram og stingur upp á fleiri sambærilegum forritum fyrir þig.
Ég hef notað þetta mikið til að leita að leikjum en mér finnst gaman að spila leiki sem snúast um að leysa þrautir þannig að þetta forrit hefur komið að miklu gagni við það. Í þessari forritaseríu er einnig hægt að fá Discovr Music, Discovr People og Discovr Movies
TÍMARIT
Hægt er að gerast áskrifandi af ýmsum tímaritum í gegnum iPaddinn og prófaði ég að kaupa mánaðaráskrift af Vogue tímaritinu og verð ég að segja að það er hrikalega flott að skoða myndirnar með þessa skerpu sem skjárinn bíður upp á. Ég held að tími blaðakaupa á þessum bæ sé liðinn og nú verður allt verslað í gegnum paddinn.
iPADDINN Í ELDHÚSIÐ
Ég skrapp svo í Elko og keypti mér stand til að setja á eldhússkápinn minn en það hefur verið draumur að geta haft uppskriftirnar mínar rafrænar, ásamt því að geta fylgst með fréttunum inn í eldhúsi og skoðaði “How to” myndbönd á Youtube um leið og ég elda. Nú hefur draumurinn ræst og ég er komin með þennan fína Belkin stand.
Já iPaddinn er heldur betur að gera lukku hérna á heimilinu og svei mér þá ef ég mun ekki bara taka hann með mér allt sem ég fer eftirleiðis?
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.