Sjaldan er góð vísa of oft kveðin en ert þú búin að taka afrit af ljósmyndunum nýlega ?
Nokkrum sinnum á ári hringir síminn heima hjá mér þar sem sá sem hringir er í sjokki yfir því að tölvan fari ekki í gang, tölvan finni ekki harða diskinn og meira segja um daginn kviknaði í einni tölvunni.
Þegar tölvan bilar, sama hvað vandamálið er, getur verið bæði flókið og kosnaðarsamt að endurheimta gögn af henni og er þar af leiðandi mikilvægt að taka afrit af gögnunum regluglega. Það þarf ekki að vera dýrt að taka afrit en hægt er að gera það á nokkra vegu.
Til dæmis er hægt að:
- Vista ljósmyndirnar á ljósmyndavefum eins og Picasa.
- Vista þær undir gagnageymslum eins og DropBox.
- Flytja gögnin á milli tölva eða á milli diska (flakkara).
- Brenna myndirnar á geisladiska.
- Geyma á USB lyklum.
Ég vel að geyma ljósmyndirnar mínar á Picasa og kostar það mig 5$ á ári (ca. 600 kr.) en það er töluvert ódýrara en að fara með harðadiskinn á verkstæði til að bjarga gögnunum. En klukkutími á verkstæði getur kostað 7.000 kr. þannig að persónulega finnst mér það ekki spurning að eyða smá aur á ári í gagnageymslu.
Margir nota DropBox sem er góð leið að geyma gögnin sín eins og word skjöl, excel, pdf. og fleira en það sem mér finnst það hafa framyfir Google Docs er að þeir breyta ekki formattinu á gögnunum þegar maður hleður þeim inn. Reyndar nota ég Google Docs til að geyma öll gögn (nema myndirnar) þar sem það er eldra en DropBox og mér finnst of mikil vinna að henda öllu yfir. En ég hef í mörg ár haft það sem reglu að ef ég kaupi t.d. vöru sem er í ábyrgð, þá skanna ég nótuna inn og geymi á Google Docs en það hefur oftar en einu sinni komið sér MJÖG vel að hafa nóturnar allar á sama stað rafrænt.
En já! Nú er ég að missa mig í tækniatriðum.
Lærdómur dagsins í dag er sem sagt að TAKA AFRIT AF LJÓSMYNDUNUM SÍNUM!
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.