Í gær opnaði Ásmundur Ásmundsson einkasýningu í hinu brakandi ferska Týsgallerí við Týsgötu í Reykjavík en á sýningunni eru teikningar sem listamaðurinn hefur unnið undanfarin ár.
Verkin eru hluti af löngu ferli sem hófst árið 2006 í Viðey: Ásmundur fékk hóp grunnskólabarna til að grafa holu ofan í eyjuna og var hún síðan fyllt með steinsteypu. Teikningarnar sem nú bera fyrir augu í Týsgalleríi gefa innsýn í einn þátt þessa magnaða ferlis. Þær eru kraftmiklar og efnisríkar og má segja að þær beri í sér þær djúpu og brengluðu tilfinningar sem þjóðin gerði tilraun til að tjá eftir að uppgangsbólan sprakk í andlit hennar.
Eftir stóð risastór hola í umhverfinu og í hjörtum fólks. Holan var fyllt með steypu og má segja að hún sé einskonar táknmynd fyrir þetta undarlega ástand sem myndaðist við uppganginn, hrunið og eftirmála þess, tíma sem við erum að upplifa núna.
Allt um Ásmund
Ásmundur Ásmundsson er fæddur á Akureyri árið 1971 en hann þarf vart að kynna fyrir áköfum unnendum samtímalistar hérlendis. Hann hefur haldið tuttugu og tvær einkasýningar, tekið þátt í yfir fimmtíu samsýningum og framið um sextíu gjörninga. Ásmundur tekur virkan þátt í opinberri umræðu og hefur skrifað á sjöunda tug greina fyrir tímarit og dagblöð og gefið út þrjár bækur. Af einkasýningum ber helst að nefna sýninguna Holu í Listasafni Reykjavíkur árið 2009 sem tilnefnd var til Sjónlistaverðlaunanna 2012 en sýningin í Týsgallerí er sjálfstætt framhald hennar. Af samsýningum má nefna 5th Nordic Biennal of Contemporary Art í Moss, Noregi og Sjónlist 2012 í Listasafninu á Akureyri. Þá hefur hann verið í hlutverki sýningarstjórans, m.a. á hinni umdeildu Koddu árið 2011 ásamt Hannesi Lárussyni og Tinnu Grétarsdóttur. Ásmundur hefur gert sér það að listformi að halda ræður við ýmis hátíðleg tækifæri og hefur bókin Kæru vinir – ræðusafn 2000-2010 verið gefin út hjá bókaútgáfunni Útúrdúr. Bókin er til sölu í galleríinu meðan upplag endist.
Sýningin í Týsgalleríi stendur yfir frá 14. nóvember til 15. desember. Týsgallerí er á Týsgötu 3, 101 Rvk. Galleríið er opið frá miðvikudegi til sunnudags frá 13-17.