Það er aldrei dauð stund í kringum tvíburann (21. maí – 20. júní) enda breytilegt loftmerki. Það er fátt sem gerir hann hamingjusamari en þegar mikið er um að vera í kringum hann og tvíbura líkar að fara frá einum stað til annars (“skreppa”), kljást við erfið huglæg verkefni, hitta fólk með skoðanir og blanda geði.
Það sem er einkennandi fyrir merkið eru því breytingar og fjölbreytni, forvitni og hreyfing, æska og frelsi, tjáskipti og sannfæringarkraftur, gáfur og skynsemi, lærdómur, menntun, aðlögun og innsæi.
Hér er vert að stoppa við lærdóm og menntun og taka fram að ef tvíburinn fær ekki huglæga næringu þá tapar hann orku og verður líflaus og áhugalítill.
Hvíld, uppskrift að leiðindum
Tvíburanum finnst alveg hræðilega leiðinlegt að hafa ekkert að gera.
Mig langar því að nota tækifærið og fræða tvíburann um merkingu orðsins hvíld. Skv. orðabók þýðir hvíld; næði, hlé, að gera fátt, friður, ró, kyrrð, værð.
Orðabókaskilgreining á orðinu hvíld er uppskrift að leiðindum að mati tvíburans og ef þú kæri lesandi veist um tvíbura sem kann að slappa af og gera ekkert máttu endilega hafa samband við mig. Það sem tvíburanum finnst aftur á móti afslappandi er t.d. að sigra í rökræðum, ferðast og að leika sér með nýjustu græjuna sína.
Ástin
Svona geturu unnið hjarta tvíburans:
- Ekki tala endalaust um það sama.
- Ekki vera önug eða of alvarleg.
- Ekki þvinga hann til að tjá hug sinn, hann veit eflaust ekki sjálfur hvernig honum líður.
- Spjallaðu við hann um allt og ekkert.
- Gefðu honum iphone, samsung síma, ipad eða eitthvað af þessum nýjustu samskiptatækjum.
- Vertu tilbúin til að gantast, hafa læti og hlæja mikið.
- Það skemmir ekki fyrir ef þú ert orðheppin og gáfuð.
- Ekki gera miklar kröfur til hans.
- Lestu hugsanir hans.
- Hrósaðu honum fyrir gáfur hans, kímni, klókindi og fegurð. Hann lifir fyrir það þó að hann láti eins og að honum sé alveg sama um allt skjall.
Hafðu í huga að þegar tvíburinn eru ástfanginn er hann viðkvæmur, auðsæranlegur og mjög ringlaður yfir tilfinningum sínum. Að lokum skaltu athuga að þegar kemur að ástinni þá sýnist tvíburinn miklu áhugalausari en hinn aðilinn.
Starfsferillinn
Tvíburinn eru athafnamaður sem kemur hlutum fljótlega í verk. Hann býr yfir miklum hæfileikum á sviði tjáskipta og gæti því hæglega orðið blaðamaður, rithöfundur, umboðsmaður, sáttasemjari, sjónvarpskynnir eða sölumaður svo eitthvað sé nefnt. Hér eru nokkur ráð sem tvíburinn getur nýtt sér til þess að græða peninga.
- Í guðanna bænum hættu að fá yfirmanninn upp á móti þér með því að sýna honum hvað þú ert miklu klárari en hann.
- Komdu því í kring að þú fáir laun fyrir að taka þátt í spurningaleikjum.
- Skrifaðu ræður fyrir stjórnmálamenn.
- Settu 10 kr. í bauk í hvert sinn sem þú finnur fyrir löngun til að slúðra um einhvern.
- Seldu eitthvað, þú hefur magnaðan sannfæringarkraft.
- Lærðu að neita þér um að kaupa græjur.
PS. Það er rétt að taka fram að þegar stjörnumerki eru skoðuð þá er það ekki bara sólarmerkið (það merki sem tilheyrir afmælisdegi okkar) sem hefur áhrif á persónuleikann heldur líka önnur merki, sem dæmi þá er pistlahöfundur með sól í fiskum en á sama tíma rísandi bogmaður. Tvö ólík merki, vatn og eldur. Sumum finnst þeirra merki ekki vera lýsandi fyrir sína persónu. Ein af ástæðum þess er að við stjórnumst af mismunandi merkjum eftir því hvenær og hvar við fæddumst.
FRÆGIR TVÍBURAR
Fanney hefur skrifað á Pjattið frá 2012. Hún skrifar mest um andlegu hliðina og lífsstílstengd mál. Fanney er viðskiptafræðingur og starfar sem slíkur hjá Markhóli markþjálfun. Hún býr í 105 Rvk ásamt sambýlismanni sínum Óskari Arnarsyni. Fanney er með sól í fiskum en er rísandi bogmaður.