Þessa dagana stunda ég námskeið í þróunar- og hjálparstarfi hjá ABC. Námskeiðið er upplýsandi og skemmtilegt. Samt ekki bara skemmtilegt.
Það er líka átakanlegt að kynna sér þann kalda veruleika sem mörg börn búa við. Það sem kemur á óvart er hvernig ABC er rekið og hve starf þeirra er víðtækt. Þetta er mikið hugsjónastarf og hver króna er nýtt í eitthvað sem koma má börnunum að gagni. Starfið snýst um það að gefa fátækum börnum tækifæri til menntunar og hjálpa götubörnum til nýs lífs með því að veita þeim heimili og menntun.
SKÓLINN Í KENÝA
Starfsfólk ABC barnahjálpar í Kenýa hafa staðið í ströngu undanfarið en byrjað var á byggingu skóla og heimavistar í Kariobangi fátækrahverfinu í Naíróbí í Kenýa á síðasta ári og er nú fyrsti áfangi byggingarinnar á lokastigi.
Búið er að taka bygginguna að hluta til í notkun undir menntaskóla og efstu stig grunnskóla þótt ýmis frágangsvinna sé eftir. Í þessari viku er svo verið að grafa grunninn að minni byggingu við hlið hinnar þar sem verður m.a. eldhús og geymslur.
Tíu tónleikar á 5000kr og allir gefa vinnuna
Til að fjármagna lokasprett byggingarframkvæmdanna verða seldir 75 múrsteinar fyrir 5000 kr. í formi tónleikapassa sem gildir á 10 tónleika. Tónleikarnir verða næstu þrjá mánuði á fimmtudögum og verður hægt er að velja um tónleikapassa sem gildir á tónleikana sem verða kl. 17 eða kl. 20. Allir tónlistarmennirnir gefa vinnu sína.
500 BÖRN
Um 500 börn og unglingar stunda nám á þessari skólalóð ABC barnahjálpar, ýmist í nýju byggingunni eða í bráðabirgða bárujárnskennslustofum sem verða aflagðar jafnharðan og hægt verður að byggja ofan á nýju bygginguna.
LISTAMENNIRNIR EKKI AF VERRI ENDANUM
Hægt er að kaupa tónleikapassana á skrifstofu ABC í Síðumúla 29, Nytjamarkaðinum Súðarvogi 3 og í Hakuna Matata og Listamiðstöðinni Líf fyrir líf Laugavegi 103 við Hlemm þar sem allir tónleikarnir eru haldnir.
Það er um að gera fyrir fjölskyldumeðlimi að slá saman í miða eða jafnvel samstarfsmenn að fara saman á tónleika eftir vinnu. Galleríið Líf fyrir líf á Laugaveginum er akkúrat nógu stórt fyrir tónleika en líka einmitt nógu lítið til þess að geta notið þess að hlusta á þetta frábæra tónlistarfólk í návígi.
Endilega styrkið þetta verðuga góðgerðarmál! Reikningsnúmer til að leggja starfi ABC barnahjálpar í Kenýa lið er: 344-13-44005, kt. 690688-1589.
Eva er menntuð sem sviðslistakona úr Fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands og menningarmiðlari úr Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Eva er líka mikill fagurkeri enda fædd í vogarmerkinu.