Í byrjun sumars var tekin sú ákvörðun að kynnast Reykjavík og nágrenni og upplifa borgina eins og sannur túristi. Þegar við hjúin helltum okkur upp á kaffibolla og skelltum okkur fyrir framan tölvuna til að finna eitthvað að gera vorum við ekki lengi að fylla listann með mörgum ævintýrum.
Eitt á listanum var (nú get ég sagt var) sjóstangaveiði en í hana fórum við í hífandi roki í síðustu viku (held mesta rokinu í allt sumar) og tilheyrandi öldugangi. Aðstæðurnar voru kannski ekki þær rómantískustu sem maður finnur en þrátt fyrir það tókst mér nú að finna hana vegna óvæntrar sjóveiki.
… það er nefninlega eitthvað rómantískt við að finna fyrir hlýjunni frá kallinum sínum þegar hann stendur yfir manni og veitir manni styrk á meðan maður horfir á einn punkt, einn punkt, einn punkt þar til maður kemur að landi og hressist allur við á fimm mínútum.
Sjórinn hefur alltaf heillað mig og þessi stund sem maður upplifir þegar hafgolan(rokið) stríkur(lemur) á manni andlitið finnst mér vera góð og ég finn fyrir einhverju frelsi.
Við fórum á sjó (sagðir þú örugglega ekki “á sjó” með svona djúpri röddu ?) klukkan fimm með hvalalif.is og tók ferðin þrjá tíma.
Báturinn tekur 25 manns í veiði og fékk hver og einn sína stöng til að veiða með. Við vorum einu íslendingarnir sem gerðu ferðina svolítið eins og við værum í útlöndum og sé ég alveg fyrir mig strákavinahópinn hittast í svona sjóstangaveiði og upplifa sjóinn.
Það komu ekki margir fiskar á land (eiginlega bara einn þar sem hinir tveir voru beita) en áhöfnin var hress og var okkur boðin önnur ferð þar sem við fiskuðum ekki þrátt fyrir að hafa róið. Það var gaman að sjá Reykjavík frá hafi og sérstaklega Hörpuna og fylgjast með hvernig glerið skipti um lit eftir því hvernig glampaði á það.
Ég mæli með að þú skellir þér niður á höfn í sumar, þar er skemmtilegt mannlíf, flestir tala útlensku þannig að maður fær svona útlanda fíling. Ef þú vilt upplifa sjóinn en ekki veiða þá er hægt að fara í lundaskoðun, hvalaskoðun, kvöldverðarsiglingar, fara í partýpakkaleiðangur og fleira hjá hvalalif.is en svo er líka fullt af veitingastöðum í gömlu höfninni ef þú vilt bara horfa á sjóinn.
Þá má heldur ekki gleyma að æfa sig í laginu “Á sjóóóóó…….” með djúpri röddu um leið og þú ert – á sjóóóóó.
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.