Ferskur túnfiskur er afar ljúffengur en hefur ekki verið algengur á borðum landsmanna en hann fæst orðið víða frosinn og smakkast ljómandi vel. Túnfiskur er mjög hentugur á grillið, enda þéttur í sér og minnir kannski meira á nautasteik en fisk. Það er auðvelt að matreiða túnfisk og hann nýtur sín vel matreiddur á einfaldan hátt.
Túnfiskur er vinsæll í sushi-matreiðslu og einnig eru túnfisktartar algengur réttur á matseðlum veitingastaða. Gott er að pensla túnfiskstykkin með örlítilli ólífuolíu, krydda síðan með salti og grófmöluðum pipar og steikja eða grilla. Túnfisk þarf að passa að ofelda ekki. Flestum þykir hann bestur miðlungseldaður, þannig að steikin sé bleik í miðjunni, steiktur eða grillaður í um 3-4 mínútur á hvorri hlið(fer þó eftir stærð og þykkt stykkjanna).
Hér er uppskrift að kryddlegi sem gerir túnfiskinn enn ljúffengari en ella uppskriftina er að finna í bókinni minni Eldað af lífi og sál.
Uppskriftin er fyrir fjóra.
- 600 g túnfiskur
- 1 dl ananassafi
- 1 msk. ólífuolía
- 1 msk. sojasósa
- 1 msk. límónusafi
- salt
Blandið saman ananassafa, ólífuolíu, sojasósu og límónusafa og látið túnfiskinn liggja í leginum í um ½ klst. Saltið síðan fiskinn og steikið eða grillið í um 3-4 mínútur á hvorri hlið, fer eftir þykkt fiskstykkjanna.
Berið fram með suðrænu salsa, nýjum kartöflum eða hrísgrjónum og wasabi-rjómi er nauðsynlegur með.
Suðrænt salsa:
- 3 tómatar, fræhreinsaðir og smátt skornir
- 1 lárpera, smátt skorin
- 1 mangó (má nota frosið)smátt skorið
- 2 hvítlauksrif, marin
- ½ rauðlaukur, smátt skorinn
- 1-2 msk. límónusafi
- ½ dl ferskt kóríander
- salt og grófmalaður pipar
Blandið öllu saman og gott að kæla um stund áður en borið fram.
Piparrótarrjómi:
- 2 dl sýrður rjómi (10%)
- 1 tsk. wasabi (japanskt piparrótarmauk, fæst í túpum)g
- örlítið salt og grófmalaður pipar
Hrærið vel saman og smakkið til.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.