Líkt og allir okkar dyggu lesendur vita erum við Pjattrófur mjög duglegar að prófa snyrtivörur og segja frá þeim hér á vefnum okkar.
Þó við séum almennt að leika okkur með mjög góðar vörur er auðvitað er alltaf eitthvað sem slær meira í gegn en annað og við bárum saman bækur okkar fljótlega eftir síðustu áramót til að komast að því hvað stóð mest uppúr.
Hér sérðu niðurstöðurnar en vörurnar eru birtar í engri sérstakri röð – Þetta eru einfaldlega 10 bestu vörurnar sem við prófuðum í fyrra og tvær þeirra eru íslensk framsleiðsla sem kom mjög skemmtilega á óvart!
Algae maskinn frá Blue Lagoon
Við höfum lengi verið hrifnar af vörum Blue Lagoon en þessi frábæri maski sló öll met um leið og við prófuðum hann. Húðin verður svo slétt og stinn og falleg eftir að hann hefur verið borin á enda efnin í honum mjög virk. Á þessu ári kom svo á markaðinn krem sem er unnið úr sama grunni og þessi maski en það er sannarlega ekki síðra og fer líklegast á topp 10 listann á næsta ári.
Xen Tan brúnkukremin
Þessi brúnkukrem eru algjör snilld og vöruúrvalið er endalaust. Sama hvort þú ert mjög ljós, dökk, vilt brúnku strax eða til í að byggja hana hægt og rólega upp þá er úrvalið í Xen Tan með þetta.
Bæði við Pjattrófur og Pixiewoo systur erum mjög hrifnar af þessari vöru en hún fæst í helstu apótekum landins. Er svolítið dýr en vel þess virði ef þú ert stelpan sem kýs smá lit á hörundið. Kostar örugglega ekki meira en tveir ljósatímar og fer ekki illa með húðina. Ilmurinn af þeim truflar ekki neitt og liturinn er fallega bronsgylltur, bara í misjöfnum tónum.
YSL Teint Touche Eclat
Katla gersamlega dýrkar þetta meik, í þessari færslu segir hún þetta besta meik sem hún hefur prófað lengi en hún hefur prófað þau mörg enda menntuð í förðunarfræðum.
“Le Teint Touche Eclat er svo léttur og þægilegur á húðinni að mér finnst ég rétt svo vera með krem á húðinni. Farðinn aðlagst svo vel að það vottar ekkert fyrir grímu tilfinningunni sem ég fæ oft með aðra farða. Með þennan ljómafarða þá hef ég ekki heldur fundið þörf fyrir að skyggja eða highlighta eins og oft vill vera með farðanotkun.”
Gucci Guilty Intense
Margrét elskar ilmina frá Gucci en Guilty línan inniheldur m.a. patchouli olíu í grunnnótunni sem höfðar kannski til villta og óstillta elementsins í okkur? Gucci Guilty Intense er dásamlega þokkafullur ilmur sem er hvorki of þungur né of léttur. Akkúrat þarna mitt á milli og alveg ómótstæðilegur fyrir alla þá sem anda honum að sér.
Estée Lauder BB krem
Vala og Gunnhildur nota báðar BB kremið frá Estée Lauder en það var með þeim fyrstu sinnar tegundar sem slógu rækilega í gegn hjá pjattrófum landsins. Kremið er með sólarvörn upp á 35 og gefur mjög fallega og náttúrulega áferð svo þetta er fullkomin vara fyrir sumarið. Þú getur lesið meira um þetta flotta BB krem í þessari færslu hjá Völu.
Garnier BB krem
Guðrún Halldórs, Rannveig og Guðný Hrönn féllu allar kylliflatar fyrir þessu BB kremi frá Garnier sem segir okkur að vörur þurfa ekki endilega að kosta mikið til að virka vel.
“Þessi vara hefur að geyma fimm eiginleika í einni túpu. Kremið; jafnar húðlit, gefur raka, inniheldur sólarvörn, gefur fallegan ljóma og hylur bólur og ójöfnur. Sem sagt ein vara sem kemur í stað sólarvarnar, farða og rakakrems…fljótlegt!” – Guðný Hrönn
“Þú þarft ekki að nota rakakrem undir eða púður yfir og því sparast tími við að hafa sig til á morgnanna. Kremið helst mjög vel á og húðin ljómar allan daginn.” – Guðrún Halldórs
“Það gerir andlitið frísklegra og felur þreytuummerki vel ásamt roða og öðrum kvillum sem vilja oft koma á andlitið svo sem bólur. Kremið jafnar þinn húðlit og er alls ekki of þungt, manni líður eins og maður sé nýbúin að setja á sig létt dagkrem þegar það er komið á andlitið og kosturinn við þetta krem að mínu mati er hversu endingargott það er.” – Rannveig Jónína
They’re Real maskari frá Benefit
Þessi maskari er einfaldlega með þeim allra, allra bestu sem völ er á. Því miður eru þeir ekki seldir á Íslandi en allir sem hoppa um borð í flugvélum Icelandair geta fjárfest í þessari græju því hann er seldur hjá Saga-Shop (þar sem má líka nota punkta til að kaupa hann). Við allar og mömmur okkar elskum þennan maskara en HÉR sérðu næstum því ótrúlegar fyrir og eftir myndir sem Katla tók af sjálfri sér eftir að hafa prófað þessa undravöru. Magnaður!
YSL Rouge Pur Couture varalitalínan
Flestar okkar eru mjög hrifnar af varalitunum frá YSL sem koma í allskonar litum og ættu því allar að finna eitthvað við sitt hæfi en Guðný Hrönn hafði þetta um Pur Coture frá YSL að segja:
“…varaliturinn þekur vel og mýkir. Hann hefur silkimjúka áferð og mjööög góða endingu. Oft hafa endingagóðir varalitir þurra áferð og/eða þurrka varinar en ekki þessi, akkúrat öfugt! Hann gefur raka og hefur pínu glans. Svo er lyktin yndisleg eins og alltaf af YSL snyrtivörunum.”
Una Skincare dag og næturkrem
Bæði Vala, Guðný og Rannveig elskuðu kremin frá Una en þau eru rammíslensk og komu á markað í fyrra. Virka efnið í UNA kremunum er unnið úr sjávarþörungum en það sama má segja um mörg dýrustu og flottustu kremin á markaðnum í dag því nær hvergi fæst jafn mikið magn andoxunarefna og úr þörungum.
“Dagkremið er afar áhrifaríkt og ég sé mikinn mun á húðinni efir að ég fór að nota það. Það er þægilegt að bera það á sig, það er lyktarlaust og húðin ljómar alveg eftir að maður er búin að bera það á. Ég sé mikinn mun á mér eftir að ég fór að nota það, húðin er öll frískari og roðinn hefur snarminnkað (dagkremið kostar á milli 5.500-6000 eftir búðum).” – Rannveig Jónína
Instant lift for brows frá Clinique
Þessi snilldarvara frá Clinique er eitthvað sem þú átt eftir að kaupa aftur og aftur ef þú byrjar á því á annað borð.
Penninn inniheldur bæði lit til að dekkja augabrúnirnar og annann til að ‘lyfta’ þeim upp en fátt gerir meira fyrir augnsvipinn en fallegar augabrúnir. Guðrún Halldórs, Margrét og Guðný Hrönn voru allar á einu máli um að þessi vara væri svokallað “must have”.
Þú getur lesið meira um augnbrúnapennnan HÉR en hann fæst í þremur litum.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.