Lana Del Rey er á allra vörum þessa daga. Hún hreif okkur með slagarana Video Games og Blue Jeans á youtube og var orðin vinsæl löngu áður en nokkur vissi hver hún var, platan var ekki einu sinni komin út.
Lana Del Rey eða Elizabeth „Lizzy“ Grant sem er hennar raunverulega nafn er enginn nýgræðingur í tónlist, hún hefur verið í tónlistarnámi og strögglað sem tónlistarmaður í USA í nokkur ár en það var ekki fyrr en hún fékk umboðsmann, nýtt nafn, hljómsveit og stílista sem hlutirnir fóru að gerast.
Lana er því enn nokkur ráðgáta, fólk virðist vera heitt í hamsi hvort hún sé „ekta“, varirnar eru feik, augnhárin feik og hárliturinn feik svo afhverju ætti hún að vera eitthvað annað en feik?
Að mínu mati er ekkert“feik“ við tónlist hennar, hún er gríðarlega hæfileikaríkur laga- og textasmiður og með mjög sérstaka og flotta rödd. Tónlistin hennar Lönu er ný, fersk og sönn. Textar Lönu snerta viðkvæma strengi, um ást sem ekki er endurgoldin, sjálfsfórnir og óöryggi.
Til að ná athygli og áhuga fólks var búin til mjög vel heppnuð ímynd Lana Del Rey, kynþokkafull og falleg kona/stelpa sem virðist full sjálfstrausts og daðrar við myndavélina í myndböndum.
Hún er greinilega með mjög færan stílista og klæðnaður hennar fágaður og fallegur í vintagestíl, hárið ávallt mikið, blásið og vel lagt í anda kvikmyndastjarna sjötta áratugarins, löng augnhár, langar neglur og rauðar varir.
Eins og fáguð millistéttarstúlka sjötta áratugarins nema í strigaskóm með bling bling sem tilheyrir hiphoppinu, eða eins og hún orðar það svo vel sjálf „The gangsta Nancy Sinatra“.
En þegar maður les dóma fólks sem fara á tónleika hennar þá virðist það hissa að sjá að þrátt fyrir vel heppnaða ímyndina virðist Lana vera óörugg og feimin lítil stelpa sem þó skilar tónlistinni frá sér fullkomlega og af mikilli innlifun. Sumir verða fyrir vonbrigðum að hún skuli ekki haga sér eins á sviði eins og hún gerir í myndböndunum en aðrir sjá að svona er hún í alvöru og ekta. Hver sá sem hlustar á texta hennar eru búnir að fatta hvað býr á bakvið ímyndina og ætti ekki að vera hissa að þegar allt kemur til alls er Lizzy Grant engin femme fatale, heldur viðkvæm og feimin stelpa. Vonandi mun Lana del Rey styrkjast við nýfengna velgengni sína og njóta athyglinnar frekar en að láta hana brjóta sig niður. Lana er með mjög færa tónlistarmenn með sér og var píanóleikari hennar var áður í bandinu hennar Amy Winehouse, við skulum vona að hún og Amy eigi það eitt sameiginlegt að vera hæfileikaríkar söngkonur..
Þess má geta að Lana del Rey hefur einnig gert myndböndin sín sjálf ásamt vinum sínum, þrátt fyrir að litlir peningar voru notuð í þau eru þau mjög vel gerð.
Það sést að peningar gera myndböndin ekki flott heldur hugmyndaflug þeirra sem þau gera, Myndbönd Lönu eru með sérstökum gömlum myndbrotum og að hluta tekin upp með super 8 vél.
Hér kemur eitt við annað lagið sem varð vinsælt með henni og ég hreinlega elska Blue jeans:
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=8t-I-Lqy06g[/youtube]
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.