Í gærkvöld mátti sjá nýja hljómsveit spila í Kastljósi. Ég hafði heyrt lagið “Tenderloin” áður og fannst það mjög flott en hafði ekki hugmynd um að þetta væri íslensk hljómsveit, hvað þá að þeir væru búnir að gera svona æðislegt myndband.
Nafn hljómsveitarinnar er komið úr sögu Þórarins Eldjárns sem heitir “Tilbury” og Viðar Víkingsson gerði sjónvarpsmynd eftir þeirri sögu 1987, myndbandið er semsagt búið til úr brotum úr myndinni og kemur einstaklega vel út.
Ég fór að forvitnast um hljómsveitina og fann þetta á facebook síðu þeirra:
“Hljómsveitin Tilbury var sett saman af trommaranum Þormóði Dagssyni (Skakkamanage, Jeff Who?, Hudson Wayne) sumarið 2010. Upphaflega var um sólóverkefni að ræða sem nefndist Formaður Dagsbrúnar en fljótlega eftir að upptökur hófust á fyrstu breiðskífunni leit hljómsveitin Tilbury dagsins ljós. Sveitin spilar eitthvað sem kalla mætti dramatískt þjóðlagapopp sem einkennist af hljóðgervlum Kristins Evertssonar (Valdimar) og sixtís rafmagnsgítarhljómi Arnar Eldjárns (Brother Grass). Bassaleikarinn Guðmundur Óskar (Hjaltalín) prýðir hljóminn með fransk-ættuðum bassalínum og trymbillinn Magnús Trygvason Eliassen (Sin Fang, Amiina, Moses Hightower) bindur svo allt saman með dínamískum trommuleik sem fer í allar áttir. Fyrsta breiðskífa Tilbury nefnist Exorcise og kemur út hjá Record Records í maí á þessu ári.”
Myndband og lag sem enginn má missa af – og platan kemur út í dag!
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=UnwOvjYOepk[/youtube]
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.