Eftir feril sem spannar hálfa öld trónir Bob Dylan enn á toppnum á meðal bestu tónlistarmanna heims. Nú í mars eru liðin 50 ár frá því að fyrsta platan hans kom út!
Það var í mars árið 1962 sem fyrsta plata Dylans: “Bob Dylan” var gefin út af Columbia records en Dylan “pródúseraði” sjálfur plötuna undir dulnefninu Jack Frost.
Fyrsta plata Dylans er ekki sögð hafa hlotið almenninlega viðurkenningu fyrr en seinna. Drengurinn frá Minnesota fór frá því að syngja “cover-lög” yfir í að gera sína eigin snilld og á methraða náði hann hátindi um miðjan sjöunda áratuginn.
Sagt er að hann hafi komið fram með nýjan andblæ, búið til nýja merkingu þess sem þótti svalt. Hárið í óreiðu, Ray-Ban sólgleraugu, þröngar buxur, töff jakkar, sígarettur og eftirtektarverð framkoma. Þarna var mættur á svæðið alvöru töffari sem gat líka sagt hvað sér bjó í brjósti!
Lögin hans eru falleg og ljóðræn, hér syngur hann It ain’t me babe:
Líklega hefur ekki verið auðvelt að vera svona stór stjarna. Það var pressa á Dylan að útskýra texta sína og skoðanir, hvernig og hversvegna hann skapaði það sem hann gerði. Þessi sífellda þörf fjölmiðla til að kryfja sköpun hans og persónu til mergjar var greinilega ekki auðveld fyrir hann að eiga við.
Hérna má sjá töffarann Dylan svara fjölmiðlafólki fullum hálsi og reyna á vissan hátt samtímis að verja ímynd sína og gera lítið úr oftúlkun.
Bob Dylan sem var skírður Robert Allen Zimmerman varð sjötugur í fyrra. Þá var haldin sýning á ljósmyndum, sjaldgæfum plakötum, árituðum gítörum og þar voru meira að segja bréf frá æskuárum hans og fleira og fleira á Zimmi’s Restaurant í Hibbing. Það hlýtur að hafa verið magnað að fara á þá sýningu í þessum litla bæ. Í tilefni af afmælinu var sett saman platan “Chimes of Freedom” til styrktar Amnesty International þar sem 80 listamenn spila Dylan-lög, mjög gott framtak!
Dylan segist ekki lengur semja tónlist því hann segist aldrei myndu getað náð fram þeim töfrum sem áttu sér stað áður fyrr. Greinilegt er að Dylan er snillingur en eigum við eitthvað að ræða það hvað maðurinn er mikill töffari?!
_______
Eva er menntuð sem sviðslistakona úr Fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands og menningarmiðlari úr Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Eva er líka mikill fagurkeri enda fædd í vogarmerkinu.