Tæp þrjú ár eru síðan að fyrsta plata Ásgeirs, Dýrð í dauðaþögn, kom út á Íslandi. Platan hlaut frábæra dóma og naut mikilla vinsælda og varð fljótlega mest selda frumraun allra tíma hér á landi.
Stuttu eftir útgáfu plötunnar skrifaði Ásgeir undir samning við One Little Indian útgáfufyrirtækið í Bretlandi um alþjóðlega útgáfu plötunnar á ensku. Platan kom út í Evrópu í janúar 2014 og stuttu síðar Ástralíu og Japan og í mars sama ár skrifaði Ásgeir undir samning við Columbia Records um útgáfu plötunnar í Bandaríkjunum.
Platan fór í fyrsta sæti á Next Big Sound lista Billboard þegar hún kom út í Bandaríkjunum og komst á Topp 10 lista iTunes yfir mest seldu plöturnar víða, m.a. Bretlandi, Frakklandi, Japan, Írlandi, Ítalíu, Hollandi og Spáni. Hér heima hlaut Ásgeir fern verðlaun á Íslensku tónlistarverðlaununum 2012 og í desember sama ár var hann tilnefndur til Norrænu tónlistarverðlaunanna (Nordic Music Prize). Í janúar 2014 var Ásgeir svo einn af handhöfum European Border Breaker Awards sem voru afhent á Eurosonic tónlistarhátíðinni í Groningen í Hollandi.
[youtube]https://www.youtube.com/watch?v=D-dHIkF_lO4[/youtube]
Gagnrýnendur hafa verið iðnir við að lofa Ásgeir og plötuna og má þar nefna National Public Radio í Bandríkjunum (NPR), TIME, Guardian, Vogue, NME og fleiri. Vefsíðan The Line of Best Fit valdi In the Silence á topp 50 lista yfir bestu plötur ársins 2014 og hið sama gerði Rough Trade. Platan var jafnframt valin besta alþjóðlega platan 2014 af GAFFA í Noregi og í Bandaríkjunum valdi einn virtasti útvarpsmaður þar í landi, Bob Boilen, In the Silence sem eina af bestu plötum ársins auk þess sem Amazon valdi Ásgeir sem einn af þeim listamönnum / hljómsveitum sem fólk ætti að fylgjast með árið 2015 (Artists To Watch in 2015). Ásgeir hefur átt miklum vinsældum að fagna í Japan og Ástralíu og í Ástralíu kusu hlustendur Triple J útvarpsstöðvarinnar sem heyrir undir ABC, King and Cross sem tíunda besta lag ársins 2014.
Ásgeir hefur ásamt hljómsveit verið á löngum og nánast stanslausum tónleikaferðum um allan heim síðast liðin tvö ár en hann hélt yfir 100 tónleika alls árið 2014. Hápunkturinn á tónleikahaldi Ásgeirs er án vafa tvennir uppseldir tónleikar í Óperuhúsinu í Sydney í janúar á þessu ári. Í febrúarmánuði hitaði Ásgeir svo upp fyrir írska tónlistarmanninn Hozier í Bandaríkjunum og í maí heldur hann til Ástralíu sem sérstakur gestur á tónleikaferð Alt-J þar í landi.
Ásgeir verður því í fantaformi þegar hann stígur á stokk í Eldborg í Hörpu, sínum stærstu tónleikum á Íslandi til þessa, ásamt hljómsveit og blásara- og strengjasveit og verður allt kapp lagt í tónleikana. Þetta verða allra síðustu tónleikar Ásgeirs á Íslandi til að fylgja eftir Dýrð í dauðaþögn því hann hefur nú þegar hafist handa við að semja lög fyrir næstu plötu og í sumar taka við upptökur ásamt stöku tónleikum á erlendum tónlistarhátíðum.
Áætlað er að næsta plata Ásgeirs komi út í mars á næsta ári.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.