Mér finnst litla þjóðin okkar alveg stórkostlega frábær þegar kemur að því að taka höndum saman og hjálpa hvort öðru.
Þegar á reynir erum við ofsalega sterk og góð. Þetta hefur oft sannast þegar fjölskyldur verða fyrir missi, við náttúruhamfarir, sjóslys og aðrar hörmungar. Við Íslendingar stöndum saman þegar á reynir. Við erum góð heild (það er að segja þegar við erum ekki að rífast á Facebook).
En hvernig erum við þegar kemur að öðrum þjóðum og þeirra erfiðleikum? Hvernig “heimsborgarar” erum við?
Stundum fer það eftir nándinni og skyldleikanum. Fréttir af hörmungum í Noregi og Svíþjóð virðast alltaf tilfinningalega nær okkur en fréttir af hörmungunum hinu megin á hnettinum… eða þangað til við sjáum að það er eiginlega enginn munur. Við búum nefnilega í heimsþorpi sem hefur minnkað gífurlega síðustu 10 ár með tilkomu samfélagsmiðlanna.
Blóðugt barn í Hello Kitty peysu
Nú berast okkur myndir frá Sýrlandi á Facebook og á fréttamiðlum. Myndir af börnum sem eru nákvæmlega eins og börnin okkar. Þau eru í Nike skóm og Hello Kitty peysum úr HM nema hvað að þessi börn eru skítug, blóðug, grátandi eða jafnvel látin og við heyrum af hundruðum sem eru enn í algjörum lífsháska.
Og við viljum taka höndum saman og hjálpa þeim að komast hingað á eyjuna… ekki bara fimmtíu manns heldur mikið fleiri. Það á ekki nokkur manneskja að þurfa að búa við slíkan hrylling.
Ljóð og listhneigð þjóð
Ísland er stórt land og nú er mikill uppgangur hjá okkur. Það vantar fólk í allskonar störf, bæði í ferðaiðnaðinn og fleira og svo er alltaf gott að fá nýtt blóð því ekki viljum við enda eins og innræktað hundakyn? Eða hvað?
Ljóðelsk og listhneigð
Á Sýrlandi hafa 22 Háskólar verið starfandi og sá fyrsti var stofnaður 1923. (Menntaðir Sýrlendingar tala flestir ensku og/eða frönsku en allir eru skólaskyldir frá 6-11 ára). Almennt læsi meðal þjóðarinnar (15 ára og eldri) er 86.0% fyrir karla og um 74% hjá konum.
Sýrlendingar eru ljóð og listhneigðir og eiga sér langa sögu og hefð fyrir ljóðlist, alveg eins og við Íslendingar. Ég er nokkuð sannfærð um að þetta fólk geti vel fundið sér farveg í landinu okkar og eignast gott líf svo lengi sem við hjálpum þeim að aðlagast og koma undir sig fótum.
Einstæðar mæður, ekkjur og börn!
Ef ég væri Eygló þá myndi ég taka hingað eins mikið af ungum konum og einstæðum mæðrum og ekkjum og hægt væri, ásamt börnum. Þannig verður aðlögunin hraðari og börnin eru svo móttækileg fyrir tungumálinu og breytingum. Að auki er bæði gott og auðvelt að vera einstæð móðir á Íslandi í samanburði við mörg önnur lönd. Það myndi fara vel um þessar konur hér.
Ég myndi líka kanna ættleiðingarsamninga við Sýrland og gera þá kunnuga. Það eru margir munaðarleysingjar í flóttamannabúðunum og það er alltaf fólk sem er tilbúið til að ættleiða börn.
Allir saman nú!
Ellefuþúsund hafa nú skráð sig á viðburðinn á Facebook þar sem fólk sýnir samstöðu um að taka á móti flóttafólki. Hér má skrá sig á lista og láta vita hvað maður hyggst leggja af mörkum til að styðja við flóttafólkið.
Á Facebook hef ég séð suma tala um að við eigum ekki að taka við flóttafólki meðan hér búa heimamenn við sult og seyru.
Við þetta fólk langar mig að segja að það er ekki vitglóra í því að bera saman stöðu manneskju sem er í lífsháska (oftast með börn sín), við manneskju sem þarf að lifa af velferðarkerfi hér á Norðurlöndum.
Ég bið það um að hugsa andartak, áður en það skrifar. Reyna að minnsta kosti að setja sig í spor þess sem býr milli heims og helju.
Opnum dyrnar
Íslendingar fóru margir til Kanada á sínum tíma, gyðingar flúðu þriðja ríkið. Auðvitað eru margir fátækir gyðingar í Bandaríkjunum í dag og eflaust eru margir íslensk-ættaðir Kanadamenn sem eiga lítinn pening. En halló. Ekki bera það saman að vera fátækur og að reyna að forða sér úr lífsháska og finna sér betri framtíð.
Ef við viljum ekki lengur vera lítið og inngróið ættbálkasamfélag á eyju úti í ballarhafi þá verðum við að gjöra svo vel að opna dyrnar og hætta þessu rugli. New York er vinsæll áfangastaður af því þar er svo stórkostlegur fjölbreytileiki í mannlífinu, – þessari fjölbreytni fylgir gróska ekki síður en áskoranir og yfirleitt verður það góða ofan á. Danir hafa verið duglegir að taka á móti flóttafólki eins og Kristín Hrefna skrifar hér, við eigum að vera það líka.
Við verðum að láta verkin tala og hætta að vera heimóttarlegir eyjaskeggjar sem óttast allt sem þeir þekkja ekki og hata breytingar. Það er árið 2015. Við búum í heimsþorpi.
Íslendingar eru fínir út af fyrir sig, en við verðum svo sannarlega ekki verri þó að hingað flytji fleira fólk. Ég segi bara eins og álfarnir:
„Komi þeir sem koma vilja, fari þeir sem fara vilja, mér og mínum að meinalausu.”
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.