Fyrir snyrtivörunörd er fátt skemmtilegra en að prófa „snyrtivöru” sem fáir hafa heyrt um og uppskera frábæran árangur. Hvað þá þegar varan er ekki seld sem snyrtivara! Þetta gerðist jú einmitt þegar ég prófaði töfrakremið frá Kerecis í fyrsta sinn og síðan hefur staðið til að skrifa um þetta töfrakrem! Já, töfrakrem… segi ég og skrifa.
Kerecis heyrði ég fyrst um hjá eiginmanni frænku minnar en sá er tæplega sjötugur útgerðarmaður vestur á fjörðum. Fyrir mörgum árum lenti hann í slysi á fætinum sem hafði mjög slæm áhrif á húð hans með tilheyrandi vandamálum. Líkt og flestir sem glíma við húðvandamál var hann búinn að prófa allt á milli himins og jarðar en ekkert virkaði almenninlega fyrr en hann prófaði þetta krem. Og veistu… þegar gamlir útgerðarmenn sjá sérstaka ástæðu til þess að tala vel um húðvörur þá sperrast eyru pjattrófa. Eðlilega. Sem snyrtivöruáhugakona til margra ára varð ég einfaldlega að kanna þetta betur!
Frábær innihaldsefni
Um leið og ég kom í bæinn rauk ég í Lyfju, fann vörurnar í hillunni og las mér til um innihaldið. Það þurfti ekki mikið til að sannfæra einn reyndasta snyrtivörubloggara landsins (mig) um ágæti þessara vara og hvaða áhrif þær gætu haft á húðina mína. Innihaldsefnin í kremunum eru meðal annars Omega3 og ávaxtasýrur en flestir kremanördar vita allt um góð áhrif af hvoru tveggja. Hvað þá saman!
Áfjáð í tilraunastarfsemina keypti ég þrjár tegundir. Rauðu, grænu og bláu.
Jafnari húðlitur og sléttari húð – taraa!
Svo hófust tilraunirnar. Ég bar kremið með rauða tappanum á andlitið (Kerecis XMA) og sóríasiskremið (Kerecis Psoria) á iljarnar þar sem ég er líka með leiðinda exem (keratolysis exfoliativa).
Einu sinni í viku notaði ég svo Kerecis Smooth (með bláa miðanum) kremið á andlitið enda er það verulega ríkt af ávaxtasýrum sem hafa mjög jákvæð og endurnýjandi áhrif á húðina og því fyrirtaks “maski” svona inn á milli.
Það tók ekki mörg skipti þar til ég sá og fann að þessar vörur, sem eru seldar sem lækningavörur, eru líka algjörlega frábærar snyrtivörur. Allt sem gerir húðina fallegri er í eðli sínu snyrtivara. Það segir sig sjálft. Er það ekki?
Stinnari, þéttari og sléttari – Já takk!
Kerecis XMA, eða kremið með rauða tappanum/miðanum, reyndist alveg frábært andlitskrem.
Húðin varð þéttari, stinnari og sléttari á stuttum tíma og litaójöfnur í henni sem orsakast af rósroða, snarminnkuðu. Ég hef aldrei prófað neitt sem er jafn gott við rósroða og Kerecis XMA kremið. Ef rósroði angrar þig líka skaltu ekki hika við að prófa.
Kerecis XMA er nefnilega sérþróað til meðhöndlunar á rauðri, aumri, bólginni húð sem er með einkenni exems. Það inniheldur mOmega3 fjölómettaðar fitusýrur en það eru sérstakar fitusýrur sem endurskapa á náttúrulegan máta millifrumulag húðar. „mOmega3 er unnið úr sjávarfangi og inniheldur m.a. EPA og DHA fitusýrur sem húðin getur nýtt sér til að viðhalda heilbrigði fylliefnis hyrnislags húðarinnar,” segir á vef Kerecis. Það inniheldur hinsvegar engar ávaxtasýrur. Þær færðu í Smooth kreminu (sem við komum að síðar).
Beint frá Ísafirði!
Æst og peppuð hringdi ég í frænku mína fyrir vestan og sagði henni frá árangri tilraunastarfsemi minnar. Þá segir hún mér heldur roggin frá því að kremið sé ekki bara framleitt hér á landi, heldur var fyrirtækið stofnað á Ísafirði! Íslensk framleiðsla takk fyrir. Beint að vestan.
„Við stofnuðum Kerecis árið 2009 til að þróa notkun á fiskroði til að meðhöndla sár og vefjaskaða. Við tókum fljótlega eftir því að húðin umhverfis sárin varð heilbrigðari og fórum að velta því fyrir okkur hvernig stæði á því. Niðurstaðan er sú að omega-3 olían í roðinu virðist hafa afskaplega heilnæm áhrif á húð,“ segir Baldur Tumi Baldursson húðlæknir í viðtali við DV í janúar 2016.
Ég gúgglaði og las meira og komst að því að þessar vörur hafa farið sigurför hjá læknum heimsins og um þær hefur verið skrifað í fjöldann allann af læknablöðum. Við þurfum þó eflaust að bíða eitthvað aðeins þar til eiginlega Kerecis snyrtivörur koma á markað, en ef ég þekki þennan bransa rétt þá þurfum við ekki að bíða neitt ofsalega lengi. Þangað til skulum við bara njóta þess hvað þær eru á góðu verði.
Virkar vel undir meik en notaðu sólarvörn
Hvort sem þú glímir við húðvandamál eða langar einfaldlega bara til að verða aðeins sætari í framan (m.ö.o. með fallegri húð) þá er þér alveg óhætt að prófa Kerecis XMA.
Ef þú ert mjög viðkvæm/ur fyrir lykt þá er kannski betra að vara þig við því það er smá “fiskilykt” af kreminu, en þú hættir alveg að finna hana eftir 10 mínútur.
Það er ekkert mál að bera meik ofan á kremið með rauða tappanum, bíddu bara aðeins og láttu húðina draga það í sig. Mundu bara að nota meik með sólarvörn því það er ekki sólarvörn í Kerecis.
Raksturskremið sem vikulegur “maski”. Notist að kvöldi.
Ef þú ætlar að prófa að nota raksturskremið í andlitið eins og ég gerði, þá mæli ég með því að gera það að kvöldi áður en þú ferð í bólið.
Raksturskremið er frekar klístrað og þessvegna hentar það ekki undir farða. Ávaxtasýrur og sól fara líka mjög illa saman þar sem ávaxtasýrurnar vinna á efsta húðlaginu.
Þessvegna skaltu líka strjúka kremið af andlitinu ef eitthvað situr eftir næsta dag og bera á þig sólarvörn.
Svo áttu að sjálfssögðu að nota raksturskremið með hefðbundnum hætti; á leggina, nára, undir handleggi eða aðra staði sem þú rakar. Húðin verður slétt eins og barnsrass og inngróin hár heyra sögunni til.
Athugaðu að efnin í kreminu eru mjög virk og því geymist það ekki lengur en í sirka fjórar vikur. Geymdu það í jöfnum hita, bara helst inni í skáp þar sem það kólnar ekki og hitnar á víxl.
Nú til dags þarf maður víst að taka það sérstaklega fram að blogg sem þetta séu ekki sponsuð og þetta blogg er það EKKI. Ég vona bara að Kerecis reynist þér og þínum jafn vel og mér.
Það er vel þess virði að prófa!
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.