Fyrir þær ykkar sem viljið fá fallega húð strax mæli ég með frábærum kokteil sem samanstendur af einni matskeið af Lýsi daglega og heilsudrykk til að kæta andann og deyfa lýsisbragðið.
Það vita allir í dag að heilsusamleg áhrif sjávarfangs eru mikil, sér í lagi vegna ómega-3 fjölómettuðu fitusýrunum EPA og DHA og dýrmætra A- og D-vítamína.
Lýsi hefur enda lengi verið verðmæt útflutningsvara Íslendinga enda hefur lýsið heilsusamleg og verndandi áhrif á líkamann og eflir varnir hans gegn hjarta- og æðasjúkdómum. Auk þess hefur áhugi manna vaknað á jákvæðum áhrifum þess á meðgöngu, fóstur, þroska heila, taugakerfis og ýmsa geðræna sjúkdóma.
Hér í eina tíð voru skólabörn látin taka lýsið á einfaldan hátt. Hellt var upp í þau ylvolgum vökanum úr stórri könnu. Það er ekkert svoleiðis í dag: Lýsið kemur með allskyns bragðtegundum – mitt uppáhald er sítrónubragðið. Það ætti ekki að vera neinn vandi að skella í sig einni skeið á morgnana.
Samt hef ég persónulega verið mjög löt við að taka Lýsi og kenni alltaf einhverju um. Þangað til núna fyrir stuttu eftir langt kveftímabil að ég ákvað að prófa nú fyrir alvöru mátt Lýsis og það bara virkar! Kvefið hvarf og aukabónusinn var að húðin varð silkimjúk!
Ég er í raun hissa að sjá hvað lýsið mýkir húðina ótrúlega mikið. Það jafnast á við dýrustu fegrunarkrem. Fegurðin er sögð koma að innan, ætli lýsi sé ekki m.a. skýringin á fegurð íslenskra kvenna, langlífi okkar Íslendinga og hreysti?
TRIXIÐ MITT: Áður en ég set lýsið í skeiðina geri ég þó eitt: Ég skelli fallega appelsínugulum gulrótum í safapressuna, ásamt einni sítrónu, engiferbita og hálfri appelsínu. Út kemur þessi líka görótti drykkur fullur af lífselexír – engiferinn er ómissandi í þessu samhengi. Töframixið er svona; fyrst er tekin ein skeið af lýsi og að því búnu er heilsudrykkurinn teygaður, næstum græðgislega enda mjög góður.
Haldirðu þessu til streitu mun húðin launa þér umhyggjusemina ríkulega með áferðarfagurri silkimýkt og fegurð.
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.