Leikkonan og fyrirsætan Anita Pallenberg er því miður ekki sérlega fræg fyrir afrek sín á hvíta tjaldinu en hún er þekktust fyrir að hafa deitað þrjá meðlimi rokksveitarinnar Rolling Stones. Þeir Brian Jones, Keith Richards og sumir segja, Mick Jagger, féllu allir fyrir hinni þokkafullu Pallenberg sem Marianne Faithful lýsti einu sinni sem tálkvendi með “evil glamour“.
Fyrsti stónsarinn sem „flæktist í vef hennar“ var Brian Jones en parið deildi áhuga á dulspeki og moddaratísku sjöunda áratugarins. Tveimur árum síðar hljópst Pallenberg á brott með Keith Richards þegar hljómsveitin var í tónleikaferð um Marokkó. Samband þeirra einkenndist af miklu svalli og eiturlyfjaneyslu og entist í þrettán ár. Þau eignuðust jafnframt nokkur börn saman.
Svalur stíll Anitu Pallenberg hefur verið fyrirmynd margra, meðal annars fyrirsætunnar Kate Moss. Hún notaði mikinn og svartan augnblýant, hárið sem var ýmist ljóst eða dökkt var sítt og slegið og hún gekk í mínipilsum og hippalegum fötum og iðulega með hatta, leðurbelti og í háum stígvélum. Þetta lúkk má m.a. sjá í myndinni Barbarellu þar sem hún leikur á móti annari kynbombu, Jane Fonda.
Áhugasamir geta séð henni bregða fyrir í þáttaröðinni Absolutely Fabulous með Jennifer Saunders og Joanna Lumley en þú getur lesið meira um hana hér á IMDB.
Anita lést árið 2017 eftir viðburðaríka ævi.
__________________________________________________
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.