Ég byrjaði í janúar að æfa pole fitness eftir að hafa dáðst að íþróttinni í þó nokkurn tíma og féll samstundis kylliflöt fyrir henni.
Mér er alveg sama hvað hver segir; Pole fitness er íþrótt, og alveg fjandi erfið íþrótt að auki!
Það vita þeir sem hafa prófað. Það er nefnilega mun erfiðara en sýnist að lyfta sér og snúast í kringum lárétta súlu og þá sérstaklega að láta það líta vel út á sama tíma.
Erfið íþrótt en alveg ótrúlega skemmtileg! Ég er með tvö orð fyrir konur sem langar að koma sér í frábært form og njóta sín til hins ýtrasta um leið; Pole fitness!
1. Alhliða þjálfun
Pole fitness krefst þess að þú berir alla þína líkamsþyngd í hinum ýmsu lyftum, snúningum og hreyfingum, allt þetta, og á meðan dansarðu líka!
Þess vegna er pole fitness alhliða þjálfun, þar sem þú nýtir alla vöðvana í líkamanum. Eftir nokkrar pole fitness æfingar ferðu að finna fyrir vöðvum sem þú vissir ekki einusinni að þú hefðir!
Flestir líkamsræktargúrúar mæla með samsettum æfingum. Með þessu er átt við æfingar sem nýta marga vöðvahópa á sama tíma.
Gott dæmi um samsetta æfingu eru gömlu góðu hnébeygjurnar eða réttstöðulyfta. Í pole fitness er aðeins verið að nýta samsettar æfingar vegna þess að margir vöðvahópar þurfa að vinna saman sem ein heild við að lyfta þér áfram. Þessar æfingar eru sérlega góðar vegna þess að líkaminn er að hreyfa sig á eðlilega vegu eins og hann gerir alla aðra daga en það er einmitt sérlega gott fyrir hann að æfa svoleiðis.
Fyrir utan að byggjast upp á samsettum líkamsþyngdaræfingum krefst pole fitness um leið mikils úthalds meðal annars í dans, snúninga og klifur. Þú getur varla fengið betri alhliða þjálfun fyrir líkamann í einni æfingu!
2. Markmiðabundin æfing
Ég ímynda mér að margir séu eins og ég var áður en ég byrjaði í pole fitness.
Ég mætti, lyfti þungt og spriklaði í ræktinni í 2 tíma á dag, fimm daga vikunnar og taldi sjálfri mér trú um að mér þætti það toppurinn, þrátt fyrir að eiga oft erfitt með að finna hvatninguna til að koma mér af stað og þurfa oft að sussa á neikvæðar “nenniekki” hugsanir.
Þegar ég var búin að æfa pole fitness í svolítinn tíma áttaði ég mig á því að mér finnst í rauninni ekkert rosalega gaman að mæta í ræktina en ég er einmitt viss um að það stafi af því að ég sá engin sérstök áþreifanleg markmið með æfingunum mínum.
Mig langaði í eitthvað meira en bara “verða flottari” eða viðhalda heilsunni (þó það sé að sjálfsögðu alltaf besta markmiðið).
Þess vegna finnst mér pole fitness svo skemmtileg íþrótt, vegna þess að markmiðin eru áþreifanleg.
Í hverjum tíma er þér kennt eitthvað nýtt sem þú vilt ná tökum á, eitthvað sem þér finnst öðruvísi, töff, eitthvað sem þú værir alveg til í að segja ættingjum og vinum að þú kunnir að gera. Eitthvað sem þú ert stolt af. Hver tími einkennist af litlum sigrum þar sem þú lærir trikk eða snúning sem þú kunnir ekki áður, eða þú nærð einhverju sem þú hefur í lengri tíma unnið að.
Þú ert því reglulega að ná litlum sigrum sem eykur hvatningu og metnað. Um leið og þú vinnur að markmiðum (og nærð þeim) hættir þjálfunin að vera þjálfun, hún er ekki lengur kvöð sem þarf að tékka af to-do lista dagsins, hún verður eitthvað sem þú hlakkar til að gera hvern dag.
3. Þú ferð út fyrir þægindarammann
Manneskjan er mjög mikil rútínuvera.
Allt oft margir hætta sér helst ekki út fyrir ímyndaða kassann sem þeir hafa sett sér sem veldur því að sjaldan er eitthvað nýtt og öðruvísi prófað. Við segjum okkur að við prófum “það” (hvað sem það er) ekki vegna þess að það er óþægilegt, það er kjánalegt að kunna ekki eitthvað og jafnvel gæti okkur þótt það leiðinlegt!
Til hvers þá að reyna?
Ég skil þig fullkomlega að tilhugsunin um pole fitness er mjög út fyrir rammann og þar af leiðandi óþægileg.
Það tók sjálfa mig meira að segja rúmlega heilt ár frá því hugmyndin að kíkja á æfingu kviknaði þar til ég dreif mig af stað.
Ég skil hversu óþægileg tilhugsun það er að vera á stuttbuxum og hlýrabol einum fata fyrir framan hóp af ókunnugum konum, ég skil að það er óþægilegt að kunna ekkert og finnast maður voðalega ósamhæfður og klunnalegur á meðan kennarinn flýgur eins og fjöður um súluna, ég skil að það er mjög ógnvekjandi að gera eitthvað sem þú hefur aldrei gert áður.
En, eins óþægilegt og það er í byrjun, er það ekkert meira en það; bara byrjunin! Eins og ég fjallaði um um daginn er enginn fæddur fullkominn, það verður að byrja til að verða betri.
Hafðu í huga að allir aðrir í tímanum þínum eru jafn miklir byrjendur og þú, kennarinn þinn var einu sinni alveg jafn mikill byrjandi líka og síðan eru allir í stuttbuxum og hlýrabol… þegar þú spáir í það ertu fáklæddari í sundi. Að lokum eru allir svo uppteknir af sér sjálfum og sinni æfingu að enginn spáir í hvað þú ert að gera.
Óþægindin hverfa eins og dögg fyrir sólu og þú skemmtir þér konunglega. Með því að stíga út fyrir þægindarammann færðu aukið sjálfstraust. Með því að sýna sjálfri þér fram á að þú getir þetta sko alveg finnurðu til ánægju og stolts.
4. Þú verður liðug
Ég ætla ekki að ljúga að ykkur, mér fannst hundleiðinlegt að teygja á. Mér fannst það hundleiðinlegt þegar ég æfði fótbolta sem krakki og mér fannst það hundleiðinlegt þegar ég æfði í ræktinni. Eyddi helst eins litlum tíma og hægt var í teygjur þar sem mér fannst þær frekar ómerkileg sóun á mínum dýrmæta tíma.
Sem strákastelpa sem æfði fótbolta hafði mér aldrei á ævinni dottið í hug að íhuga splitt, hvað þá að reyna. Þangað til á þessu ári var skoðun mín sú að splitt (eða allur liðleiki af nokkurri stærðargráðu) væru bara á valdi fárra útvalda og alls ekki í mínum kortum.
Svo breyttist allt. Ég byrjaði að æfa pole fitness. Pole fitness er í rauninni samblanda af fimleikum og dansi þar sem lóðrétt súla er notuð og flestar hreyfingarnar krefjast, auk gríðarlegs styrks, mikils liðleika.
Nú kem ég aftur inn á markmiðabundnu þjálfunina; ég sá fljótt að til þess að verða betri í pole fitness þyrfti ég að verða liðugri. Sem leiddi til þess að ég byrjaði mínar – vægast sagt – klunnalegu tilraunir í átt að splittinu.Það fyndnasta er að teygjur eru í dag orðnar eitt af mínum helstu áhugamálum.
Ef þú hefðir sagt mér í desember á síðasta ári að innan nokkurra mánaða myndi ég vera orðin forfallinn teygju-fíkill sem kemst í splitt hefði ég líklegast verið mjög dónaleg og hlegið framan í þig. En það er það sem gerðist, og allt út af pole fitness.
Þetta hef ég heyrt frá fleiri stelpum en bara mér og ég tengi það algjörlega við pole fitness – það er hvatinn á bak við það að vilja verða liðugri. Ég er viss um að þú fáir teygjubóluna líka ef þú byrjar að æfa!
5. Samheldið samfélag
Mannveran hefur mikla þörf fyrir að finnast hún vera hluti af einhverju stærra en hún sjálf.
Við þrífumst í samfélögum af ýmsum gerðum; við búum í bæjum og borgum, erum hluti af skóla eða vinnustað, eigum okkur ákveðinn vinahóp og svo framvegis. Mér finnst stór jákvæður þáttur við pole fitness vera það að þú ert partur af stærra samfélagi. Þú æfir með sama fólkinu og hefur þess vegna möguleika á að kynnast nýju fólki og eignast nýja vini. Þetta gerir að verkum að það er enn skemmtilegra að fara á æfingar, þú ert ekki bara að fara til þess að hreyfa þig, heldur ertu líka að fara til að hitta vinkonur þínar og deila reynslunni með þeim.
Almennt séð finnst mér pole samfélagið uppfullt af sérlega jákvæðu fólki. Ég æfði í stúdíói í Reykjavík sem heitir Eríal Pole og þar voru allar stelpurnar yndislegar; kennarar jafnt sem stelpurnar sem þar æfðu.
Nú æfi ég í stúdíói í Finnlandi og það er sama sagan; kennarar og stelpurnar sem æfa þar eru allar frábærar. Auk þess er ég í hinum ýmsu spjallhópum viðkomandi þessari íþrótt á netinu og það er eins; samheldni, jákvæðni og stuðningur, sama hvaðan úr heiminum það er.
Pole fitness er líka fyrir alla. Alla! Það skiptir engu máli í hvernig formi þú ert, hvernig kroppurinn þinn lítur út eða á hvað þú ert gömul. Ekki láta neitt af þessu þrennu stoppa þig í að prófa.
Það er eitt víst; ef þú skellir þér á æfingu verður þér tekið með opnum örmum!
Töff, sexý og sterk
Hverja langar ekki að finnast hún ógeðslega töff, sexý og sterk allt á sama tíma? Það er nefnilega nákvæmlega það sem pole fitness snýst um.
Það er ótrúlega gaman að mæta í tíma, horfa á kennarann sýna trikk og heyra röddina í hausnum á sér segja samstundis “guð, ekki séns að ég geti gert þetta!” yfir í að prófa og geta það bara víst! Það er ótrúlega gaman að læra hluti sem þér datt aldrei í hug að þú gætir gert. Það er ótrúlega gaman að dansa af innlifun, jafnvel þó það sé svolítið klunnalegt!
Það er ótrúlega gaman að hitta nýjar vinkonur og spjalla á milli snúninga og lyfta eða hlæja saman að því hversu erfitt eitthvað er eða hversu hrapallega eitthvað mistókst. Það er ótrúlega gaman að finna til samþykkis og viðurkenningar frá öllum hinum. Það er ótrúlega gaman að negla einhverja hreyfingu og fá hrós. Það er ótrúlega gaman að hugsa til þess hversu sterk, flott og sjálfsörugg þú verður þökk sé þessari líkamsrækt.
[youtube]https://www.youtube.com/watch?v=YmjYAMF64cI[/youtube]
Það er bara ótrúlega gaman í pole fitness!
Sveindís Þórhallsdóttir útskrifaðist í vor með BS gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands en býr nú í fallegum bæ á Finnlandi þar sem hún leggur stund á mastersnám í íþrótta- og æfingasálfræði. Sveindís er jafnframt einkaþjálfari, heldur úti fjarþjálfun á vefsíðu sinni og hefur mikinn áhuga á hvers kyns hreyfingu og heilbrigði.
Pole fitness á hug hennar allan og fríkvöldunum er oftar en ekki varið í að teygja fyrir framan sjónvarpið. Hún á eitt stykki frábæran kærasta og dreymir um að bæta kisu á heimilið.