Það er aldeilis frjósemin í okkur íslendinum þessa dagana er sífellt að heyra um vinkonur og rekast á kunningjakonur sem eiga von á sér
…og við erum tvær af fjórum pjattrófunum sem eigum von á barni -ætli þetta sé kreppan?
Fyrst taldi ég mig vera komna með flensuna en var fljót að átta mig á að mér hafði verið gefin dýrmætasta gjöf sem hægt er að óska sér.
Barn er undur og gleðigjafi -og það er ævintýri að ala upp barn enda erum við öll spennt að taka vel á móti litlu kríli í þennan heim annast, knúsa og elska.
Nú eru aðeins 22 ár síðan ég átti son minn -og þessvegna finnst mér ég vera að byrja upp á nýtt, hálf týnd yfir öllu dótinu sem fylgir ungabarni: kerra, vagga, vagn, skiptiborð, bleyjutaska, bílstóll og finna nafn á litla krúttið… og hvernig verður að ferðast með ungabarn í sumar? Nú þarf greinilega að skipuleggja hlutina enn betur.
Og svo vantar barnið auðvitað herbergi.
Aukaherbergið, sem hefur verið vinsælt gestaherbergi hefur verið losað og ég hef fengið hugmyndir úr tímaritum og af vefsíðum. Ég tek eftir að ákveðin breyting hefur orðið á 22 árum og tíska virðist vera dottin í hönnun barnaherbergja.
Það gleður mig mikið að disney er ekki lengur ælt yfir veggi, húsgögn og veggfóðraðar lengjur með ævintýra-fótboltamyndir virðast (nánast) horfnar en möguleikarnir eru hinsvegar endalausir.
Hvað líst þér best á?
Díana Bjarnadóttir útlitsráðgjafi og stílisti hefur margra ára reynslu við að aðstoða fólk með fataval. Hún starfaði meðal annars á Ítalíu og í London þar sem hún var stílisti stjarnanna hjá Giorgio Armani og Gucci.
Hefur einnig verið búsett í svíþjóð, Hollandi og á Selfossi en býr nú í Reykjavik. Díana er einnig með menntun í förðunarfræði. Greinar og ljósmyndir Díönu hafa m.a. verið birtar í tímaritunum Veggfóður, Ský og Smáralindarblaðinu. Díana er fædd 1. maí og er því naut.