Ann-Margret er ekki nafn sem allir kannast við en engu að síður er hún ein þekktasta og flottasta Hollywood leik- og söngkona tuttugustu aldarinnar.
Með tvær Óskarstilnefningar fyrir hlutverk í Carnal Knowledge (á móti Jack Nicholson) og rokkóperunni Tommy (þar sem hún leikur móður Tommy). Ég horfði nýlega á Tommy og þá vakti þessi glæsilega kona athygli mína í hverju magnaða átfittinu á fætur öðru, svipað og Michelle Pfeiffer gerði í Scarface, sem Margrét skrifaði svo skemmtilega um daginn.
Ann-Margret Olsson fæddist í Svíþjóð 28 apríl 1941 og fluttist fimm ára til Bandaríkjanna en ferill hennar hófst þegar hún var unglingur og tók þátt í hæfileikakeppnum sem komu henni strax í sjónvarp. Hún var þá aðeins sextán ára.
Ann-Margret var uppgötvuð af George Burns í kringum 1960 og fékk þá bæði plötusamning hjá RCA og kvikmyndasamning hjá 20th Century Fox. 1961 fór lag hennar ” I just don´t understand” í topp 20 Billboard listans og árið eftir lék hún dóttur Bette Davis í “Pocketful of Miracles”.
Sex kitten
1963 kom svo stóra tækifæri Ann-Margret þegar hún lék á móti Elvis Presley í söngmyndinni “Viva Las Vegas” og líka í “Bye Bye Birdie”. Þá varð hún með tíu eftirsóttustu leikkonum í Hollywood og vann einnig Golden Globe verðlaun. Í framhaldi af þessu fékk hún viðurnefnið “Sex-kitten” og þeirri ímynd hélt hún í hlutverkum sínum fram að áttunda áratugnum.
Orðrómurinn um Elvis og Ann
Það var lengi vel sá orðrómur á kreiki að Ann-Margret og Elvis ættu í ástarsambandi, Elvis sendi henni stóra blómvendi í hvert sinn sem hún frumsýndi ný verk í gegnum árin og var hún eina leikkona sem leikið hafði á móti honum sem mætti í jarðarförina hans árið 1977. Eftir að hafa leikið með Elvis Presley lék Ann-Margret meðal annars í myndunum The Cincinnati Kid (1965), Bus Riley’s Back in Town (1965) and Murderers’ Row (1966)og C.C. and Company (1970).
Úr niðursveiflu í Óskarinn
Eftir niðursveiflu í ferlinum, þar sem hún lék í evrópskum myndum, kom hún sterk tilbaka með hlutverk sitt á móti Jack Nicholson í “Carnal Knowledge” og hlaut Óskars tilnefningu fyrir. Loks hafði henni tekist að sanna sig sem alvöru leikkonu en ekki bara einhverja kynbombu en 1972 slasaðist Ann-Margret illa þegar hún féll 5 metra af sviði á Lake Tahoe. Eftir að hafa jafnað sig kom hún sterk til baka og lék eitt frægasta hlutverk sem sem móðir Tomma í rokkóperunni “Tommy”.
Ekki af baki dottin
Ann-Margret hefur undanfarin ár leikið í mörgum sjónvarps- og hollívúddmyndum en skemmst er að minnast hennar í “Grumpy Old Men” þar sem hún var konan sem Jack Lemmon og Walter Matthau voru báðir skotnir í. Síðan hefur hún m.a. leikið í Any Given Sunday (1999), Taxi(2004/I), The Santa Clause 3: The Escape Clause (2006), og The Break-Up (2006).
Ann-Margret hefur verið gift Roger Smith síðan 1967 og er stjúpmóðir barnanna hans þriggja.
Það er ekki hægt að segja annað en að Ann-Margret hafi átt langan og farsælan feril og gaman er að skoða myndir af henni í gegnum tíðina, enda klassa stílíkon.
Hér að neðan má sjá lag Ann-Margret “13 Men” við myndbrot úr rokkóperunni Tommy:
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=5-a0mmNNUig[/youtube]
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.