Ég skrapp til London um daginn og tók þar eftir því hvernig fatastíll borgarbúa hefur breyst. Mér fannst áberandi hvernig kreppan hefur breytt stílnum…
…því ódýrari fatnaður, fatnaður úr vintage verslunum eða úr fataskápnum hjá ömmu var vinsæll hjá ungu konunum. Greinilegt að fólk er farið að nýta fatnaðinn mun betur. Hugmyndaflugið fær að njóta sín – fatnaður frá 1930-1950 og sjötti-, sjöundi og tíundi áratugarnir eru í tísku. Kvenlegur stíll er því orðin mjög áberandi og konur farnar að blanda fatnaði og tíðarandanum í fatastílnum. Skemmtilegt að sjá að flestar konur eru orðnar óhræddar við að finna sinn eigin stíl og gera klæðnaðinn þarafleiðandi að sínu.
Segja má að tískan í London sé frjálsleg, náttúruleg og mjög einstaklingsbundin en vel sniðnar ullarkápur, leðurjakkar, leðurkápur, metallitir, glimmer, stjörnur og tigrisdýramunstur voru áberandi. Einnig konur klæddar í gervifeldi -og vesti voru greinilega “inn” í London, hvort sem við vorum staddar á Oxford Stræti, Brick Lane eða Portobello Road.
Gervifeldir voru hreinlega alls staðar í tískuverslunum en einnig á mörkuðum sem voru stútfullir af fallegum pelsum, kápum og loðfeldum. Einnig voru vesti úr feldi og gervifeldi fáanlegir og vestin þá klædd á gínur með breiðu vintage belti.
Díana Bjarnadóttir útlitsráðgjafi og stílisti hefur margra ára reynslu við að aðstoða fólk með fataval. Hún starfaði meðal annars á Ítalíu og í London þar sem hún var stílisti stjarnanna hjá Giorgio Armani og Gucci.
Hefur einnig verið búsett í svíþjóð, Hollandi og á Selfossi en býr nú í Reykjavik. Díana er einnig með menntun í förðunarfræði. Greinar og ljósmyndir Díönu hafa m.a. verið birtar í tímaritunum Veggfóður, Ský og Smáralindarblaðinu. Díana er fædd 1. maí og er því naut.