Jaðarhópamenning hefur löngum heillað undirritaða og hér langar mig að segja ykkur frá Teddy stelpunum sem flestar eru nú orðnar ömmur og langömmur, ef þær eru þá ekki búnar að skella sér yfir móðuna miklu þar sem þær reykja rettur og hlusta á Jerry Lee Lewis.
Írskar stelpur í algjörum sérflokki
Margir kannast við Teddy boy’s strákana sem komu fyrst fram á sjónarsviðið í Bretlandi kringum 1950.
Klæðaburður þeirra var innblásin af spjátrungum aldamótanna (Edwardian dandy’s) og tónlistin sem þeir hlustuðu á var rokk og ról.
Teddy-girls voru hinsvegar sérdeild. Þetta voru ungar stelpur, 14-15 ára, vanalega af írskum verkamannaættum sem höfðu flutt til London.
Stelpurnar hættu flestar snemma í skóla og fóru að vinna í verksmiðjum eða við skrifstofustörf. Sumar fóru þó í listaskóla enda augljóslega ekki neitt sérstaklega „mainstream“.
Þær lögðu mikla vinnu í útlitið og klæðaburðinn, sem stakk í stúf við allt sem var í gangi á þessum tíma. Voru hálfgerðir sérvitringar en segja má að bæði Teddy stelpur og strákar hafi verið fyrsti menningarhópurinn sem skilgreindur var sérstaklega sem unglingamenning. Fram að þessu var hugtakið unglingur ekki til.
Með asíska hatta og clutch töskur
Teddy stelpur klæddust síðum jökkum og síðum pilsum sem náðu niður á miðja kálfa. Þær spókuðu sig líka í síðum pilsum sem voru bundin að neðan, skyrtum með háum kraga og slipsi, gallabuxum með uppbrettum skálmum. Skórnir voru flatbotna og þeim þótti töff að vera í aðsniðnum jökkum með flauelskrögum. Þá voru spænsku espadrillurnar líka í lúkkbókinni, sem og asískir hattar sem voru notaðir á hrísgrjónaökrum (og eru kannski enn) og svo var lúkkið kórónað með fínni clutch tösku.
Seinna meir þróaðist þessi tíska yfir í útvíð pils og tagl uppi á höfðinu en sú alþekkta rokk og ról tíska varð mikið útbreiddari en Teddystelpu tískan.
Takið eftir því hvað þetta trend er skemmtilega „unisex“. Þetta er ekki í fyrsta eða síðasta sinn sem það gerist því margoft í gegn um tískusöguna hafa strákar og stelpur klætt sig og jafnvel málað nákvæmlega eins. Síðast var þetta áberandi á pönk og nýbylgjutímanum og þar á undan á hippatímanum. Ekkert er nýtt undir sólinni krakkar mínir.
Stelpurnar, líkt og Teddy strákarnir, fæddust flestar í miðri seinni heimstyrjöld og höfðu alltaf búið við krappan kost. Þær voru samt algjörir harðjaxlar að sögn leikstjórans Ken Russel sem tók þessa geggjuðu myndaseríu í London þegar hann var aðeins 23’gja.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.