Á skírdag/sumardaginn fyrsta voru útskriftarnemar úr fatahönnunardeild Listaháskóla Íslands með tískusýningu í Hafnarhúsinu.
Það var margt um manninn og þangað mætti allt aðal-tískulið Íslands, salur og svalir voru troðfullar. Sýningin flott og tónlistin töff.
Gaman var að sjá hvað hópurinn var ólíkur og vel hægt að greina persónulegan stíl hönnuða. Í útskriftarhópnum eru 8 stelpur og einn strákur. Strákurinn, Guðmundur Jörundsson, var svo sniðugur að fá þjóðþekkta menn til að sýna fyrir sig t.d Atla Rafn leikara og Daníel Ágúst söngvara sem uppskáru að sjálfsögðu athygli og fagnaðaróp.
Hann var líka með töff jakka og buxur úr leðri og grófan stíl en ekki þóttu mér stelpurnar síðri og jafnvel fannst mér “stuðningslið” þeirra hafa mátt láta í sér heyra líka því margar voru þær með dásamlegar flíkur þó þær hafi ekki verið með “selebb” að sýna fyrir sig.
Ég var persónulega hrifnust af Hjördísi Gestsdóttur með stílhrein og fáguð snið sem ég myndi gjarna vilja klæðast, Gígju Ísis Guðjónsdóttur með litríkar og skemmtilegar flíkur sem auðveldlega mætti sjá á herðatrjám í Kron Kron og Jenný Höllu Lárusdóttur með skemmtilegar extravagant flíkur.
Húrra fyrir flottum útskriftarhóp!
Hér má sjá myndir frá sýningunni og afsaka ég innilega gæðin, þetta var tekið á imbavél þar sem alvöru græjan lenti í gólfinu og brotnaði 🙁
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.