Til hamingju með daginn Íslendingar!! Ég efast ekki um að flestir íslendingar séu stoltir í dag og fagni okkar 70 ára sjálfstæði.
Fallegur upphlutur hefur verið á óskalista hjá mér í nokkur ár. Í dag er einmitt dagurinn sem ég þrái að geta klæðst slíkri gersemi. En hvaðan kemur þessi búningur?
Í heild eru til fimm gerðir þjóðbúninga á konur en þjóðbúningur getur verið; upphlutur, faldbúningur, peysuföt, kyrtill og skautbúningur.
Hinn klassíski klæðnaður kvenna á 18. og 19. öld var faldbúningur. Ekki auðveldur daglegur klæðnaður það!
Upphlutur er upphaflega nærfatnaður! Nei nú grínast ég ekki! Hluta af þessum klæðnaði klæddust konur undir faldbúningi fyrr á öldum en þróaðist að lokum í að verða sjálstæður fatnaður.
Peysufötin var fatnaður almúgans. Vinnandi konur tóku upp á því að taka þægindin fram yfir útlitið og hófu að klæðast karlmannspeysum og húfum sem voru mun þægilegri en faldbúningurinn. Þaðan er nafn búningsins komið.
Það var Sigurður Guðmundsson málari sem hannaði bæði skautbúning og kyrtil. Skrautbúningurinn var hannaður með það í huga að nútímavæða faldbúninginn en hugsunin bak við hönnun kyrtilsins var sú að Sigurður vildi að konur tækju upp þjóðlega sparibúninga.
Hvaðan sem búningarnir eru komnir eru þeir tímalaus og gullfallegur spariklæðnaður!
Myndir fengnar að láni á buningur.is
Eydís Halldórsdóttir er viðskiptafræðingur að mennt. Fædd og uppalin í Eyjum, hefur verið búsett í Reykjavík síðustu ár en býr nú í Barcelona þar sem hún stundar mastersnám og nýtur lífsins. Tíska og hönnun er hennar helsta áhugamál. Eydís er tvíburi samkvæmt speki stjarnanna, fædd í maí 1990. Mail: eydishalldors@gmail.com