Brátt kólnar í veðri og því ekki seinna vænna að huga að hlýrri fatnaði. Haustfatnaðurinn þykir mér oft skemmtilegri en fyrir vorið því ég elska stórar peysur og trefla.
Í ár er ég fallin kylliflöt fyrir bláum trefli og blárri ullarkápu eftir fatahönnuðinn Magneu sem ég þrái að eignast fyrir veturinn. Kannski ekki til að nota saman en þessi blái litur passar við svo margt annað. Sérstaklega svart og grátt sem hönnuðurinn hefur augljóslega hugsað vel út í.
Magnea Einarsdóttir er spennandi hönnuður að mínu mati en hún sýndi haustlínuna There was Blue á á RFF í mars. Fatalínan er unnin út frá þessum einstaka bláa lit sem hún lét sérlita í íslenska ull.
Fyrsta sendingin inniheldur trefla og kápur í bláa litnum sem fljótlega fást einnig í svörtum og gráum lit.
Á næstu vikum verður svo hægt að nálgast peysur, kjóla og buxur úr merino ull í sömu litunum. Magnea blandar gallaflíkum við ullina í línunni sem fæst í Kiosk á Laugavegi 65 og verður einnig til sölu í Mýrinni í Kringlunni.
Ljósmyndirnar eru eftir Sögu Sig.
Vatnsberinn Marín Manda fæddist í Danmörku, er alin upp á Íslandi en hefur þó mestmegnis búið í Kaupmannahöfn á fullorðinsárum. Hún hefur starfað við ýmislegt í gegnum tíðina: markaðsmál, blaðamennsku, útvarp, hönnun og sölu. Hún hefur rekið eigin verslun og er núna í fullu námi í nútímafræðum.
Marín Manda elskar að ljósmynda, hjóla með vindinn í andlitið, þræða nytjamarkaði, skoða innanhúshönnun, ferðast á framandi slóðir og svo er hún nýbúin að uppgötva jóga. Hún er ferðalangur, mikil draumórakona og stundum einum of einlæg. Hún er líka mamma, á tvö dásamleg börn sem heita Alba Mist og Bastian Blær.
Mottó: Kýldu á það!