Það er algengt að stjörnurnar reyni að framlengja frægð sinni og þannig halda sér í sviðsljósinu um ókomna tíð.
Sumar leggja harðar af sér við að leika í stórum kvikmyndum, einhverjir keppast við að fá stærsta ekkasogs grátkastið yfir Óskarnum, aðrar stjörnur skunda út í 3. heiminn og kasta matarpökkum í glórulausa frumbyggja eða gefa út ævisögu með ítarlegum lýsingum á því hversu hræðilegt það var að missa af strætó…og svona mætti lengi telja. Þessar tilraunir virkar oftar en ekki. Hver hefur ekki séð myndir af tárvotri Angelinu Jolie í vanþróuðu landi, með munaðarleysingja í fanginu (sem er samt með hærri fituprósentu en hún). Það er þó ein framabraut sem hefur gengið helst til brösulega fyrir fræga fólkið að feta. Það eru til undantekningar, en þær eru örfáar.
Frægt fólk er, upp til hópa, mjög lélegt í að hanna föt
Nú megið þið ekki vera reið út í mig en… þetta er allt saman ofsalega ljótt. Kannski eigið þið eitthvað af þessum flíkum, ég efa það samt. Í fyrsta lagi eru þetta yfirdrifið dýr föt. Í öðru lagi eru þið meiri smekksmanneskjur en þetta. Þó geta allir gert innkaupamistök, þar með talin undirrituð.
Kanye West
Frábær tónlistarmaður. Ekki frábær hönnuður.
Ég geng svo langt að segja að þessir skór séu ljótir. Þeir eru ljótir og ég þori að lofa að þeir eru óþægilegir. Mér er að minnsta kosti illt í augunum. Kanye West má halda áfram að búa til tónlist, rífa verðlaunagripi af fólki og meira að segja hnoða í fleiri Kardashian-börn. Hann má ekki hanna fleiri skó. Það verður einhver að taka af honum skissublokkina, med det samme.
Kardashian-klúbburinn
Miða við genablöndu hjá ófæddri dóttir Kim og Kanye, ætti það barn ekki að leggja fyrir sig fatahönnun. Smekkleysan gæti gengið í erfðir og í þessu tilviki í bæði í móður-og föðurlegg.
Þetta er skrýtnasti sundbolur sem ég hef séð. Eða er þetta bikiní? Eða…er þetta skreyting á lampa sem þú getur smellt af og sett í þvottavélina?
Bara upp á gamanið er ég að ímynda mér hversu mörg og sérkennileg tan-för þessi blessaða kona mun fá eftir að hafa farið á ströndina. Hún verður röndótt eftir daginn. Kardashian-fjölskyldan er þekkt fyrir margt, en tískuvit er ekki þar á meðal. Persónulega hef ég gaman af hallærinu þeirra, en þessi sundpjatla fær mig ekki til að hlæja. Hvorki fyndið né flott. Bara ljótt.
Lindsay Lohan
Hvar á ég að byrja? Listinn af ljótum fötum, sem þessi stórstjarna hefur reynt að selja, er sorglega langur.
Skammarlegasta tilvikið er líklega þegar tískuhúsið Emanuel Ungaro (já, t-í-s-k-u-húsið!) fékk Lindsay til ljá þeim hönnunarhugmyndir sínar. Það er eins og senda ungabarn í næturpössun til Rottweiler með hundaæði. Maður gerir ekki svoleiðis. Útkoman er hreint út sagt hræðileg. Uppáhaldið mitt er baunaspíran sem er eiginlega ber að ofan. Þessi blái dömubindatoppur er svo hrikalegur að restin af fötin virðast næstum því þokkaleg. Meira að segja loðna hjartaskrautið sem er límt á ennið á fyrirsætunni. Það er slæmt.
Áfram heldur vitleysan. Næsta ástarsamaband sem endaði subbulega: Lindsay + Leggings.
Hverjum datt í hug að þetta myndi ganga upp? Hélt Lindsay að það yrði stríðsástand í Kringlunni og fólk myndi kremjast undir við það eitt að reyna ná sér í eintak þessum leggings? Því það gerðist ekki. Sem betur fer.
Nicky Minaj
Rúsínan í pylsuendanum! Myndin hér að neðan er háalvarleg hönnun. Eða svona hér um bil.
Nicky Minaj hefur svo sannarlega skotist hratt upp á stjörnuhimininn fyrir flotta tónlist. Gott hjá henni. Af hverju hún finnur þörfina til þess að skyggja á tónlistarhæfileika sína með þeim allra ljótustu fatagörmum sem nokkru sinni hafa sést, er undirritaðri óskiljanlegt.
Kannski heldur hún að þetta sé svo ljótt, að það fari í hring og verði flott? Svo er ekki raunin; þetta er einungis ljótt og stoppar ekki hjá flottu. Það væri forvitnilegt að vita hver markhópurinn hennar var, með þessu fatnaði?
Skrípó-dagur hjá Blindrafélaginu? Nei, staurblindur maður myndi banda þessu frá sér. Þessi fatalína er svo slæm að þó ég myndi klæða mig í sundbol eftir Kardashian-systur, í Lindsay Lohan leggings yfir það og skella mér í hæla frá Kanye West þá yrði ég aldrei jafn hallærisleg og þessi ,,hönnun” frá Fröken Minaj.
Stundum þarf að draga fram hreinskilnisbuxurnar: Elsku fræga fólk! Haldiði áfram að gera það sem þið gerið best og látið fagfólk um restina.
Bestu kveðjur,
Neytandinn/Aðdáandinn
Anna Margrét er fædd í Reykjavík árið 1987, en hefur alið manninn í Svíþjóð, Suður Ameríku og víðar.
Anna er krabbi, og þykja þeir hinir kátustu. Tíska, förðun, jafnrétti, skrif og ferðalög um Afríku eru nokkur af hennar áhugamálum.