Carine Roitfeld var ritstjóri franska Vogue í 10 ár þar til Emanuelle Alt tók við í síðasta mánuði. Margar sögur fóru á kreik um brottrekstur Carine og fór sú saga fjöllum hærra að forstjóri Conde Nast (sem á Vogue) hafi rekið hana vegna desember heftisins.
Ég á þetta umtalaða desemberblað og þetta er að mínu mati mest sjokkerandi Vogue blað sem ég hef séð. Tom Ford og Carine Roitfeld vinna eintakið saman og það var greinilega efst á blaði að ögra. Ég vissi ekki hvernig ég ætti að taka þessum myndum, mér fannst forsíðan fullkomin og gífurlega falleg en eftir því sem ég fletti fóru um mig meiri og meiri ónot.
Fyrst undraði ég mig á myndum af módelum með umbúðir eftir lýtaaðerðir og sprautur. Svo var afar kynferðislegur tískuþáttur með eldri borgurum og loks sló “barnaklámið” mig alveg út af laginu.
Litlar stelpur hafa flestar gaman að því að klæða sig í kjóla mömmu sinnar og stelast í snyrtibudduna en þessi myndaþáttur var ekki alveg á saklausu nótunum…
Að klæða börn upp í haute couture kjóla, hæla og með stríðsmálningu í sexý pósum er ekki eitthvað sem mér finnst sniðugt, ég hugsaði bara “Vá er ég svona mikil tepra eða er þetta normal?”
Með blaðinu fylgdi svo hið árlega dagatal Vogue, sem voru afar erótískar myndir af hinni fögru Daria Werbowy, þar sem hún er kviknakin og ekkert “falið”, flott dagatal sem sómir sér vel í flestum verkamannaskúrum og bifvélaverkstæðum. Þú getur séð það HÉR.
Ákvörðun Carine Roitfeld og Tom Ford að setja allt sem ögrar í eitt og sama blaðið var kanski ekki svo sniðugt?
Ég hef lengi dáðst að verkum þeirra beggja og mun sakna þess að Carine ritstýri Vogue. Kannski var Carine orðin leið og vildi láta “reka” sig, þó hún þverneiti fyrir það að hafa verið rekin, þetta var “sameiginleg ákvörðun”?.
Kannski var markmið þeirra að sýna allar skuggahliðar tískunnar á ýktan hátt? Öll vitum við að módel niður í 12 ára eru á tískupöllunum, margar stúlkur þjást af átröskun og fara í lýtaaðgerðir til að passa í “módel-formið” og æskudýrkunin er þvílík að myndaþáttur með eldri borgurum í kynferðislegum stellingum ögrar okkur á meðan sami myndaþáttur með ungu fólki myndi ekki hreyfa mikið við neinum.
Leyfum myndunum að dæma sig sjálfar…
[poll id=”24″]Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.