Ég er agalega stolt af sjálfri mér enda var ég að ljúka frábæru 6 vikna námskeiði hjá Hreyfingu sem heitir Bikiní áskorun.
Ég hef sjaldan verið í betra formi og finnst meira að segja gaman að hreyfa mig, fer í ræktina algjörlega ótilneydd vegna þess að mér líður betur á sál og líkama við það. Og hvað er annað hægt að gera eftir að hafa staðið sig svona vel en að kaupa sér nýtt bikiní?!
Ég hef verið að skoða baðfatatískuna og komst fljótt að því að hlýralaus sundföt eða efnislítil eins og virðast vera í mikið í tísku henta mér alls ekki.
Kannski ef ég væri barnlaus og sundferðir væru rólegur afslöppunartími, en í sannleika sagt á ég nógu erfitt með að halda venjulegum sunfatnaði á sínum stað með krakkana hangandi í mér eða hlaupandi á eftir þeim.
Ég sækist því eftir vel sniðnum, flottum sundfötum sem munu halda sér á sínum stað og ég held ég sé búin að finna rétta merkið. Ástralska merkið Seafolly er með sérlega fallega línu nú í sumar sem minnir á fimmta áratuginn. Seafolly var stofnað 1975 og er leiðandi á sundfatamarkaði Ástralíu og víðar, það má oft sjá Seafolly sundföt í Vogue og öðrum tískuritum en samt eru sundfötin á viðráðanlegu verði.
Seafolly fæst m.a. í Útilíf og hjá Hreyfingu.
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.