Nú stendur tískuvikan í New York sem hæst þar sem hönnuðir frumsýna vor/sumarlínu 2012.
Mulleavy systur sem hanna undir nafni Rodarte fundu innblástur að næstu vor/sumarlínu hjá gamla meistaranum Van Gogh. Nánar tiltekið í sólblóma- og stjörnuhimna-málverkum hans. Þær bjuggu til mynstur með brotum úr myndum hans og fengu einnig litapallettu sína úr málverkum hans.
Flestir þekkja málverk Van Gogh og hafa plaköt og eftirprentanir af verkum hans verið á veggjum annars hvors heimilis síðustu áratugi. Úr þessu verða draumkennd mynstur sem minna á sólblómaakra, sól og stjörnubjartan himinn.
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.