Ég hef alltaf elskað leður. Mér finnst svart leður passa við allar flíkur og nánast öll tilefni. Hvort sem þú ert að klæða þig hversdagslega eða aðeins fínna.
Það er því ansi góð fjárfesting að eiga nokkra leðurjakka í fataskápnum og jafnvel leðurbuxur sem koma einnig í tísku reglulega.
Nýjasta viðbótin í tískuflórunni fyrir haustið er leðurskyrtan – fyrir herrana. Í raun er svona skyrta unisex, eða fyrir bæði kynin. Sjálf á ég eina slíka. Mér finnst leðurskyrtan svo töffaraleg við gallabuxur og jafnvel léttari buxur. Það er hægt að nota hana á margan hátt. Með hvítan bol inn undir eða bara eina og sér. Danska merkið Suit hefur framleitt leðurskyrtu fyrir herra en hún fæst í GK Reykjavík. Einnig er slík væntanleg hjá Moss Copenhagen fyrir herra. Önnur merki á borð við Diesel og The Kooples eru að sjálfsögðu með leður skyrtur í sínum haust og vetrarlínum.
Leður kemur aftur og aftur í tísku. Þannig er hringrásin þrátt fyrir að sniðin eða aukahlutirnir breytist eftir árstíðum. Í dag er meira að segja ekkert tabú að blanda saman mismunandi leðurflíkum, bæði buxum og skyrtu saman. Það krefst þess ekki að eiga mótorhjól til að þeytast á um bæinn. Alls ekki. En það skemmir ekki.
Það má vel vera að sumum finnist skyrtan djörf en mér finnst hún bara rokkaraleg og sexý. Hvað finnst ykkur?
Vatnsberinn Marín Manda fæddist í Danmörku, er alin upp á Íslandi en hefur þó mestmegnis búið í Kaupmannahöfn á fullorðinsárum. Hún hefur starfað við ýmislegt í gegnum tíðina: markaðsmál, blaðamennsku, útvarp, hönnun og sölu. Hún hefur rekið eigin verslun og er núna í fullu námi í nútímafræðum.
Marín Manda elskar að ljósmynda, hjóla með vindinn í andlitið, þræða nytjamarkaði, skoða innanhúshönnun, ferðast á framandi slóðir og svo er hún nýbúin að uppgötva jóga. Hún er ferðalangur, mikil draumórakona og stundum einum of einlæg. Hún er líka mamma, á tvö dásamleg börn sem heita Alba Mist og Bastian Blær.
Mottó: Kýldu á það!