Robyn Lawley er nýjasta “plus-size” fyrirsætan sem skotist hefur upp á stjörnuhimininn en hún bendir réttilega á að henni finnist fáránlegt að vera kölluð “plus-size” þegar það er hún sem er eðlileg og “venjulegu” fyrirsæturnar sem séu of horaðar og ættu frekar að vera kallaðar mínus-size.
Robyn er glæsileg, 188 cm á hæð og fallega vaxin með línur, rass og læri eins og alvöru kona.
Hún hefur setið fyrir bæði í Vogue, Elle og Marie Claire en eins og svo margar eðlilegar fyrirsætur þá fær hún aðallega nærfata- og sundfata auglýsingaverkefni. Það er frábært að konur nær því sem telst eðlilegt séu taldar kynþokkafullar, (og flest erum við sammála um að það er kynþokkafyllra að vera með brjóst og línur heldur en að vera flatbrjósta spíta.)
Persónulega væri ég til í að sjá fleiri fyrirsætur í eðlilegri stærð á tískupöllunum og í tískublöðum án þess að úr þeim sé gerð “sex kitten” eða “amazonian” týpa. Vogue hefur lagt fram reglu um að nota aldrei aftur fyrirsætur sem eru vannærðar samkvæmt BMI stuðli en dansa enn á jaðrinum við það sem telst heilbrigt, vonandi munu Robyn og fleiri eðlilegar fyrirsætur vera þeim hvatning.
Robyn, sem á yngri árum reyndi stöðugt að grenna sig til að geta unnið sem fyrirsæta, á núna heilbrigt samband við mat og heldur úti skemmtilegu matarbloggi. Helsta fyrirmynd Robyn er kokkurinn knái Jamie Oliver og einn daginn vill hún opna kokteila og eftirréttabar í New York, -Ég þangað já takk!!
Spurð að því hvort hún muni svo allt í einu grennast eins og fyrrum plus-size fyrirsæturnar Crystal Renn og Sophie Dahl gerðu svarar Robyn:
“Nei, ég er og verð þessi stærð, ég er í kjörþyngd, ég er með einkaþjálfara og æfi og hreyfi mig og borða eins og eðlileg manneskja, í guðs bænum ég er með matarblogg, ég elska mat, borða hollt en leyfi mér stöku sinnum óhollustu en kem þó aldrei nálægt skyndibita!”
Ég hlakka til að fylgjast með Robyn og vona að fleiri konur í heilbrigðri stærð komi fram á sjónarsviðið í kjölfarið. Það má sjá viðtal við þessa glæsilegu konu hér!
___________________________________________________________
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.