Eftir viku hefst Reykjavík Fashion Festival í þriðja sinn. Allt tískuáhugafólk á Íslandi og víðar bíður spennt og hlakkar til að sjá það nýjasta frá helstu tískuhönnuðum Íslands.
Reykjavík Fashion Festival snýst ekki bara um tískusýningar heldur koma hingað einnig mjög góðir gestir og fyrirlesarar og flytja okkur erindi eins og Bernhard Wilhelm hönnuður, Áslaug Magnúsdóttir forstjóri Moda Operandi, Pauline Brown fjárfestir og ráðgjafi lúxusvörumerkja ofl. Hönnuðir bjóða heim og eru með lengri búðaropnanir og ýmsir viðburðir sem tengjast hátíðinni verða um allan bæ.
Fyrir okkur tískuáhugafólk er RFF því orðið að “uppskeruhátið” og verður hún bara glæsilegri með hverju árinu. Það má sjá dagskrána HÉR!
Hægt er að skrá sig til að fá fréttabréf frá RFF með öllu því nýjasta sem er að gerast hvern dag hátíðarinnar á síðu þeirra og mæli ég með því fyrir alla sem ætla að fara á hátíðina og einnig þá sem ætla sækja hina ýmsu viðburði sem tengjast henni.
Hönnuðurnir í ár eru:
- Hildur Yeoman
- KALDA
- Kormákur & Skjöldur
- Kron by KronKron
- MUNDI
- ÝR
- BIRNA
- ELLA
- Milla Snorrason
- REY
- Ziska
Ég mun fram að hátíðinni fjalla um flesta þessa hönnuði og að sjálfsögðu vera viðstödd hátíðina og fjalla um allt það helsta “í beinni”, sjáumst á RFF !
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.