Það kostar ekkert að láta sig langa, sagði móðir mín við mig hughreystandi þegar ég andvarpaði með nefið klesst við búðarglugga.
Bleikglimmer-fjaðurskreyttu gúmmístígvélin sem blikkuðu ef maður stappaði urðu greinilega ekki mín þennan daginn. Líklegast hef ég gengið álút í burtu og full vonbrigða út í þetta líf sem var ekki alltaf eftir mínu höfði.
Það er þó satt sem hún var vön að segja við mig: Að láta sig langa, dreyma, hlakka til… kostar ekki krónu.
Þrátt fyrir að hafa þótt þetta óþolandi tugga á mínum yngri árum hef ég tamið mér þessa hugsun í seinni tíð. Að láta sig langa í eitthvað getur nefnilega verið mikill drifkraftur.
Stundum, þegar mér finnst lífið vera strembið og ég á erfitt með einbeita mér að á markmiðum mínum leyfi ég dagdraumum mínum að taka við. Eitt sem stappar í mig stálinu er að skoða alltof dýra og fáránlega óþægilega skó á internetinu (já þetta er hégóminn). Þá hugsa ég með mér:
“Jæja Anna Margrét! Nú gefur þú allt í þennan próflestur og einn góðan veðurdag verður þú afskaplega mikilvæg kona út í bæ, þrammandi um í alltof dýrum og óþægilegum skóm!”
Þar kemur vefverslunin Net-a-porter inn í myndina. Sú mæta síða hefur oft verið fjallað um hér á Pjattrófunum en þó ert ekkert rangt við að bera út góðan boðskap. Ekki halda samt að ég hafi fjárfest í nokkrum sköpuðum hlut frá þessari síðu: Ég er atvinnulaus háskólanemi sem er yfirleitt inneignarlaus og borga mest allt með klinki.
Burtséð frá inneignarleysi mínu þá er net-a-porter æðisleg síða með þær fallegustu vörur sem til eru. Góður staður til að finna sér gulrótina til að drífa sig áfram.
Hér eru æðisleg myndbönd frá Net-a-porter sem eru sannkallað augankonfekt! Þar eru margar ástæður til að ætla sér að verða farsæll, þó það sé bara til að eignast þessa gulu Mulberry tösku (komdu til mömmu)
Horfið, njótið og um að gera, látið ykkur langa-það er ókeypis! Hér er Net-a-porter
Töskuveikin mín gaus upp eftir að hafa horft á þetta myndband. Ég gnísti tönnum.
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=hHzT6-zryo4[/youtube]
Hver á nóg af skóm? Ekki ég. Ekki eftir að hafa horft á þetta myndband. Ég þarf fleiri skó!
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=Gr3D15EG79g[/youtube]
Þar sem að ég er innileg áhugakona um brúðakjóla eru Net-a-porter auðvitað með myndband til að æsa upp alla sem láta sig dreyma um kjól og hvítt.
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=OvBPBZ12iKU[/youtube]
Anna Margrét er fædd í Reykjavík árið 1987, en hefur alið manninn í Svíþjóð, Suður Ameríku og víðar.
Anna er krabbi, og þykja þeir hinir kátustu. Tíska, förðun, jafnrétti, skrif og ferðalög um Afríku eru nokkur af hennar áhugamálum.