Það er alltaf gaman að skoða fatasamsetningu hjá mismunandi fólkinu á götunni. Á meðan ein þolir ekki támjóa skó finnst annarri þeir flottir, sumir vilja sjúskuð föt og aðrir vilja bara það nýjasta úr tískuverslunum…
…Þessa stundina er næstum allt í gangi þegar kemur að tísku en eitt er víst að við Íslendingar erum gríðarlega mikil tískufrík. Algengt er að fólk sé að eyða um 10 þúsund krónum á mánuði í fatnað, en auðvitað leyfa sumir sér að eyða minna og margir versla einungis fatnað á útsölum. Svo eru enn aðrir sem myndu aldrei láta sjá sig á útsölum!
Í þau ár sem ég hef starfað í verslunum hef ég tekið eftir því að verslunarhegðun fólks er nokkuð misskipt, sumir viðskiptavinir komu í hverjum mánuði til að finna eitthvað nýtt til að taka með sér heim, svo eru það þeir/þær sem vissu upp á hár að nýjar vörur dyttu inn á fimmtudögum -eða föstudögum, og versluðu sér þá nýtt dress fyrir helgardjammið!
Sumt fólk er svo eins og árstíðirnar fjórar…það kemur árstíðabundið og endurnýjar þá allt í fataskápnum á haustin. Svo kemur það aftur rétt fyrir jólin, og svo enn aftur þegar fer að vora og verslar þá flest allt fyrir sumarið.
Eitt er þó víst að öll viljum við sjá sóma okkar í því að líta vel út og er talið að flest fólk sé tilbúið til að eyða að jafnaði um 10.000 kr í fatnað á mánuð.
Hefur þú velt því fyrir þér hvað þú eyðir miklu í fatnað á mánuði?
Díana Bjarnadóttir útlitsráðgjafi og stílisti hefur margra ára reynslu við að aðstoða fólk með fataval. Hún starfaði meðal annars á Ítalíu og í London þar sem hún var stílisti stjarnanna hjá Giorgio Armani og Gucci.
Hefur einnig verið búsett í svíþjóð, Hollandi og á Selfossi en býr nú í Reykjavik. Díana er einnig með menntun í förðunarfræði. Greinar og ljósmyndir Díönu hafa m.a. verið birtar í tímaritunum Veggfóður, Ský og Smáralindarblaðinu. Díana er fædd 1. maí og er því naut.