Í gær var uppskeruhátið tískuhönnuða í Metropolitan safninu í New York. Þangað var allt aðal-tískulið og stjörnur heims mættar í sínu fínasta pússi.
Þema hátíðarinnar að þessu sinni var að heiðra minningu Alexanders McQueen og var allur umbúnaður gerður með hann í huga, t.a.m var risastórri eftirlíkingu eikartrés plantað í anddyrið, samskonar og tré sem uxu á landareign hans í Sussex.
Hátíðin var tilfinningaþrungin og mátti sjá tár á vöngum vina hans og samstarfsfélaga sem að sjálfsögðu mættu í fötum frá hönnuðinum.
Alexander McQueen var dáður fyrir list sína en einnig elskaður sem manneskja og vinur, það bera honum allir vel söguna.
Þó hönnun Alexanders McQueen hafi verið mest áberandi á rauða dreglinum kom mér á óvart að jafnmargir ef ekki fleiri mættu í kjólum frá Stellu McCartney.
Stella er mjög vinsæl meðal fræga fólksins og það er jákvætt fyrir heiminn þar sem Stella leggur áherslu á umhverfisvernd, dýravernd og mannréttindi og reynir að fylgja hugsjónum sínum í framleiðsluferlinu öllu.
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.