Fatatískan fer í hringi rétt eins og svo margt annað í lífinu. Það sama má segja um skótískuna sem er ansi spennandi um þessar mundir. Heitasta tískutrendið núna eru há stígvél alveg upp á læri.
Slík stígvél koma mjög sterkt inn sem og hnéhá stígvél. Leggings stígvél eða stígvél upp á læri eru mjög kynþokkafull en við frjálslegan klæðnað geta þau verið glæsileg hvort sem þau eru há-eða lágbotna. Það ber einna helst á stígvélum í rússkinni sem er mjög vinsælt en einnig er að finna úr leðri eða flauel. Litirnir tóna svo margir hverjir við haustið sjálft, í brúnu, svörtu og vínrauðu.
Ég eignaðist mín stígvél í byrjun sumars þegar ég fór á fatamarkað hjá Rita’s Blå Lopper í Kaupmannahöfn en ég elska að fara á nytjamarkaði og aðra fatamarkaði. Sérstaklega þeir eru haldnir úti og það myndast skemmtilegt stemning með margskonar fólki og góðri tónlist.
Það er algjörlega eitthvað sem að daninn kann að gera og ég prútta óhrædd við seljendur um hinar ýmsu vörur. Á þessum markaði keypti ég þrjú pör af skrítnum skóm og stígvélin sem eru núna í uppáhaldi. Ég er ekki með leggi sem ná upp í tungl eins og Julia Roberts í Pretty Woman en ég er tilbúin að prófa allt sem að kallar fram ákveðna nostalgíu og lætur mér líða vel.
Ef þú vilt eignast slík stígvél þá er úrvalið ansi fínt hjá vefverslununum ASOS.COM og NELLY.COM.
Vatnsberinn Marín Manda fæddist í Danmörku, er alin upp á Íslandi en hefur þó mestmegnis búið í Kaupmannahöfn á fullorðinsárum. Hún hefur starfað við ýmislegt í gegnum tíðina: markaðsmál, blaðamennsku, útvarp, hönnun og sölu. Hún hefur rekið eigin verslun og er núna í fullu námi í nútímafræðum.
Marín Manda elskar að ljósmynda, hjóla með vindinn í andlitið, þræða nytjamarkaði, skoða innanhúshönnun, ferðast á framandi slóðir og svo er hún nýbúin að uppgötva jóga. Hún er ferðalangur, mikil draumórakona og stundum einum of einlæg. Hún er líka mamma, á tvö dásamleg börn sem heita Alba Mist og Bastian Blær.
Mottó: Kýldu á það!