Það er allt að verða vitlaust í brúðkaupsundirbúningi fyrir morgundaginn. Vona ég að brúðhjónin fái rúm til að anda eftir þennan fjölmiðlasirkús og að papparassar láti þau í friði eins og þau óska.
Ekki viljum við að saga Díönu heitinnar endurtaki sig. Ógrynnin öll af myndum hafa birst af tilvonandi brúðhjónum og þau eru nú voðalega sæt en..
Ég hef eitt að segja varðandi fataval Villa prins, hvað er hann að spá?
Hann er með svo HRÚTLEIÐINLEGAN smekk að það hálfa væri nóg.
Þetta er myndarlegur ungur maður en hann klæðir sig eins og hann sé fimmtugur endurskoðandi!??
Villi ætti að leyfa Kötu að sjá um fataval sitt og hætta að hlusta á pabba sinn og ömmu því eins og er þá virðast dökkblá jakkaföt vera einkennisklæðnaður hans, svo “politically correct” og einsleit. Díana heitin móðir hans var svo glæsileg kona með flottan stíl að það er synd að hann skuli ekki vera meiri týpa.
Kata aftur á móti er töluvert meira smart, hún nær að vera klassísk og fáguð þegar við á og svo bara eins og hver önnur skólastelpa sem verslar í Top shop dags daglega.
Ég tók saman nokkrar myndir af tilvonandi hjónum og þá má sjá Villa prins í dökkbláu jakkafötunum á flestum þeirra… burt með þessi jakkaföt og inn með stíl sem hentar aldri hans og útliti.
Spennandi verður að sjá hvort Villi prins verði í dökkbláu jakkafötunum við altarið á morgun?
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.