Coco Rocha er ein af þeim sem maður gleymir ekki eftir að hafa séð myndir af henni. Hún er fædd árið 1988 í Toronto í Kanada og móður-umboðskrifstofa hennar er ModelQuest, en ásamt því er hún á skrá hjá mörgum öðrum umboðsskrifstofum.
Umboðsmaðurinn Charles Stuart uppgötvaði Coco í írskri danskeppni árið 2002 en hún er m.a. af írskum uppruna. Fyrir þann tíma hafði hún ekki íhugað módelstörf og þekking hennar á tísku var mjög takmörkuð.
Síðan hefur hún unnið sem fyrirsæta um allan heim, fyrir merki eins og Anna Sui, Versace, Marc Jacobs, Louis Vuitton, Jean Paul Gaultier, Stella McCartney, Christian Lacroix og Yves Saint Laurent svo að fátt eitt sé nefnt.
Einnig hefur hún verið á forsíðum allra helstu tískutímaritanna, og mörgum sinnum hjá sumum. Þar má nefna Vogue, Harper’s Bazaar, Dazed and Confused, Flare, Fashion, Numéro, W og margt fleira.
Stúlkan er einstaklega hæfileikarík á sínu sviði og það mætti segja að hún sé með mjög “mörg andlit” en engin mynd af henni sem maður sér er eins og öll verkefni sem hún tekur að sér tala til fólks á ólíkan hátt.
Auk þess fær Coco prik í hattinn fyrir að hafa talað opinskátt um skoðun sína á átröskunum í tískubransanum. Hún hefur lýst vanþóknun sinni á því hvað fyrirsætum er sagt að gera til þess að grenna sig og viðurkennir einnig að hafa verið mjög lituð af þessum viðhorfum í byrjun.
Þegar hún var nýlega spurð út í það að vera ekki í stærð 0 (size zero) sagði hún:
“It took a while to grow the confidence to say: ‘This is who I am, take it or leave it.’”
Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er förðunarfræðingur og útskrifaðist með hæstu einkunn úr MOOD Make Up School með áherslu á tísku- sjónvarps- og ljósmyndaförðun og tók Airbrush námskeið í sama skóla. Hún er sjálfstætt starfandi og tekur að sér hin ýmsu verkefni, allt frá einstaklings- og brúðarförðunum upp í tímarit og auglýsingar. Einnig vinnur hún fyrir Bobbi Brown á Íslandi sem sölustjóri.
— Vantar þig förðun og/eða persónulega förðunarráðgjöf? Hafðu samband á gunnhildur@gb-makeup.com