“Viðbrögðin hafa verið ótrúlega góð og ekkert smá skemmilegt að sjá hvað fólk er opið fyrir þessu. Ég vildi bara að ég gæti framleitt þetta hraðar til að mæta eftirspurn betur,” svaraði hin 19 ára Margrét Mist Tindsdóttir þegar ég spurði hana út í hönnun hennar.
Margrét Mist stundar nám við Verzlunarskóla Íslands, starfar í Lifandi markaði og heklar falleg bikiní sem aldeilis hafa fallið í kramið hjá kvenþjóðinni í sumar.
Hún segir áhuga sinn á hönnun ávallt hafa verið til staðar en í byrjun sumars ákvað hún að framkvæma hugmynd sem hún hafði gengið með í tæp þrjú ár.
Eftir að hafa fundið poka af garni sem hún hafði gleymt, hófst hún handa við að hekla bikiní með hjálp ömmu sinnar sem aðstoðaði við að þróa sniðið. Í sumar fékk hún vinnu hjá Skapandi sumarstörfum í Garðabæ sem var hvetjandi en þar gafst tími til að framleiða bikinílínuna sem heitir BER bikiní.
“Mér fannst það mjög skemmtilegt og viðeigandi nafn en heiðurinn af því á Björk Brynjarsdóttir sem er einmitt að vinna með mér í Skapandi sumarstörfum.”
Hægt er að sérpanta bikiní í ýmsum óskalitum í skálastærðum A, B og C og þau eru afhent í fallegum öskjum.
“Ég er alltaf að þróa þetta og hef hugsað mér að fara út í það að selja heklaða toppa sem ná niður á nafla í haust. Ég bjó til svoleiðis fyrir mig og vinkonu mína og hafa rosalega margir verið að spyrjast fyrir um þá,” segir Margrét Mist að lokum.
Ég mæli með að þið kynnið ykkur Ber bikini en pantanir eru gerðar í gegnum majamist96@gmail.com .
Vatnsberinn Marín Manda fæddist í Danmörku, er alin upp á Íslandi en hefur þó mestmegnis búið í Kaupmannahöfn á fullorðinsárum. Hún hefur starfað við ýmislegt í gegnum tíðina: markaðsmál, blaðamennsku, útvarp, hönnun og sölu. Hún hefur rekið eigin verslun og er núna í fullu námi í nútímafræðum.
Marín Manda elskar að ljósmynda, hjóla með vindinn í andlitið, þræða nytjamarkaði, skoða innanhúshönnun, ferðast á framandi slóðir og svo er hún nýbúin að uppgötva jóga. Hún er ferðalangur, mikil draumórakona og stundum einum of einlæg. Hún er líka mamma, á tvö dásamleg börn sem heita Alba Mist og Bastian Blær.
Mottó: Kýldu á það!