Ég elska föt og allt sem þau bjóða upp á en ef það er eitthvað sem ég mun aldrei geta staðist eru það yfirhafnir.
Ég dái þær og dýrka og ætla núna að reyna gera heiðarlega tilraun við að smita þig af þessari áráttu.
Fyrir ári síðan tók ég áskorun á sjálfa mig. Var búin að safna að mér svo mörgum yfrhöfnum (um 50 stk.) að ég komst ekki yfir að nota þær allar. Að nota þær er þó ekki einu sinni alltaf tilgangurinn þegar ég fjárfesti í þeim. Sumar yfirhafnir finnst mér bara svo fallegar að ég verð að eignast þær þó notkunin sé mögulega lítil,- það kemur alltaf tilefni vil ég trúa.
Ég skoraði semsagt á sjálfa mig að nota hverja yfirhöfn einu sinni þar til ég var búin að fara í gegnum þær allar, bannað að nota sömu yfirhöfnina aftur fyrr en áskoruninni var lokið. Þetta tók allt í allt um fimm vikur.
Það sem ég lærði á þessu var að við gleymum allt of oft hvað er til í skápnum og eigum til að hætta reyna finna leiðir að nota þær upp á nýtt nema þegar við tökum ákvörðun um það. Ég uppgötvaði að ég gat klætt margar yfirhafnirnar mínar á annan hátt en ég var vön að gera og gladdi það mig mjög – nýr tilgangur með flíkinni!
Ég held að árátta mín með yfirhafnir stjórnist af því að mér finnst gaman að hafa fatastílinn minn fjölbreyttan og skapa nýtt dress á hverjum degi. Þar af leiðandi hefur týpíska úlpan ekki alltaf verið minn kostur í yfirhöfnum. Einnig er oft kalt á Íslandi og við því ekki mikið að fara úr yfirhöfnum okkar nema þegar við erum kominn innan dyra.
Við búum á Íslandi og veturinn er okkur oft erfiður. Við byrjum að ganga í úlpunum okkar snemma hausts og hættum svo þegar fer að vora almennilega apríl/maí. Við erum því föst oft í sömu yfirhöfninni meira og minna allt árið. Mér finnst úlpa til dæmis ekki alltaf passa við þær flíkur sem ég vel mér þann daginn og hef því væntanlega leitað annað. Mér finnst úlpan oft heftandi hvað varðar fataval og uppreisnaseggurinn sem ég er þá leyfi ég úlpunni ekki að stjórna. Ekki misskilja mig samt, ég úlpu sem mér finnst flott, nota hana bara einstaka sinnum.
Mig langar hér, með aðstoð mynda, að gefa þér hugmyndir um hvernig er hægt að nota yfirhafnir sem eru pottþétt einhverjar til í fataskápnum þínum og gætu leyst úlpuna af. Þó ekki sé nema einn dag. Ég meina það er kominn apríl og það er enn að snjóa af og til – ég trúi ekki öðru en að þú sért komin með leið á úlpunni þinni!
Heilræði: Aldrei láta neinn segja þér hvað þér á að finnast flott – finndu þinn eigin stíl og rokkaðu hann!!
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.