Thelma Björk heitir íslensk kona sem hefur mikla ástríðu fyrir hönnun og handverki en Thelma sérhæfir sig í því að gera gullfallegt handgert höfuðskart.
Hún segist alltaf hafa haft mikinn áhuga á handverki og hefðum, alveg frá barnæsku en þessi áhugi leiddi hana í Ecole Lesage í París sem er skóli, sérhæfður í Haute Couture handverki. Lesage er eitt fremsta og elsta fyrirtæki á sviði útsaums og sér fornfrægum tískuhúsum, svo sem Chanel, Dior og Givency fyrir handgerðum útsaumsskreyttum efnum fyrir Haute Couture sýningarnar í París.
Í tískuheiminum er Haute Couture andstæðan við fjöldaframleiðslu og þar er áherslan lögð á handbragð og hver flík eða hlutur er frá grunni handgerður og einstakur. Við gerð slíkra flíka eða hluta er notast við útsaum eða bróderí og fólst nám Thelmu í því að læra og tileinka sér þær aðferðir og spor sem notuð eru í efni fyrir Haute Couture.
“Fyrir mér var þetta einstakt tækifæri til að stilla saman fágun hefðarinnar og forvitni sköpunarinnar,” segir Thelma. “Hattar og höfuðföt hafa alltaf heillað mig sem og sú rómatík og dulúð sem þeim fylgir, að ég tali ekki um fallegt höfuðdjásn eða kórónu. Fátt gerir fallega flík hátíðlegri eða tignarlegri en fallegt höfuðskraut,” segir hún en Thelma bjó í París í tvö ár áður en hún flutti til landsins aftur. Hún leggur nú fulla stund á gerð höfuðskrautsins og selur afurðirnar í versluninni KIOSK á Laugavegi þar sem nokkrir af okkar færustu hönnuðum selja verk sín.
Ég verð að segja að þetta skart finnst mér einstaklega sérstakt og fallegt og væri vel til í að eiga eins og eitt fallegt höfuðskraut úr smiðju Thelmu.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.