Jæja, ég ætlaði að gera samantekt af tísku haustsins sem er á næsta leiti en eftir að hafa farið í víðamikla rannsóknarvinnu, eytt tíma í að skoða tískusýningar allra helstu tískuhúsa ofl hef ég komist að þeirri niðurstöðu að nánast allt er í tísku!!
Sjötti-, sjöundi og tíundi áratugarnir eru í tísku! Mikið hár, sítt hár, stutt hár, náttúrulegt hár, litað hár, uppháar buxur, niðurmjóar buxur, útvíðar buxur, síðar og stuttar, jarðlitir, sterkir litir, pastellitir, glimmer, silki, chiffon, leður, rússkinn, plast og gervipels..
Ég væri fljótari að segja ykkur hvað er EKKI í tísku!
Það er í tísku að vera smekklegur, litaglaður og blanda stílum saman.
Það er hinsvegar ekki í tísku að fylgja hjörðinni, með hjarðhegðun þá á ég við þau ‘outfit’ sem virðast vera rótgróin í okkar menningu, þó þau teljist aldrei smart eða smekkleg.
Þetta er t.d. EKKI í tísku:
- Stutt gallapils við leggings og háa hæla.
- Nylon/polyester kjólar sem eru bæði stuttir og flegnir, stundum skræpóttir, í skærum litum eða með eina öxl. Svona kjólar munu aldrei teljast annað en druslulegir.
- Sem minnir mig á“stripparaskó” þið vitið þessir himinháu með opna tá í skærum litum. Ég segi NEI!
- Flíspeysur eru ekki í tísku, þær munu aldrei vera í tísku og alveg sama hversu dýr hún er, hversu vel hún er markaðssett þá er hún ekki töff en hún getur hinsvegar verið hentug og góð til útivistar.
- Að vera í svörtu frá toppi til táar er úrelt en það er algjört no no að blanda skærbleiku saman við.
- Aflitað hár, mikil brúnka, kolsvartar augabrúnir, tribal tattú og langar gervineglur með ‘french manicure’ er ekki í tísku.
Muna bara smekkleg, frumleg, smekkleg.. og ykkur gæti tekist að skapa eigin stíl því í raun bíður tískan og tíðarandinn upp á flest allt sem þér dettur í hug. Láttu hugmyndaflugið ráða og finndu þinn eigin stíl, það er töff!
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.