Háir hælar eru alls ekki á neinu undanhaldi, reyndar virðast þeir sífellt hækka og stelpur á menntaskólaaldri jafnvel farnar að mæta á 16 sm háum hælum í skólann.
Við vitum öll að hælarnir fara ekki vel með fæturna og þá ber að nota í hófi en það er erfitt að segja unglingum að eitthvað sem þau gera muni hafa áhrif á líkama þeirra í framtíðinni. Unglingar eiga það sameiginlegt að finnast þau ódauðleg og trúa því ekki að það sem þau gera núna muni hafa áhrif seinna..
Það sem sker í augu hjá mér eru stúlkur og konur sem klöngrast áfram á háum hælum eins og drukknir sjóarar að berjast við að halda jafnvægi.
Það er ekkert smart við það að vera í háum hælum ef þú kannt ekki að ganga á þeim.
Háir hælar eiga að þjóna þeim tilgangi að þú gangir bein í baki og gefa þér fágað yfirbragð.
Hafa ber nokkur atriði í huga áður en þú kaupir hælaskó:
- Rétt stærð! -margar vilja troða sér í smærri skó því þeim finnst þær fótstórar en það mun bara vera enn meira áberandi þegar aumir fætur gera uppreisn og þið staulist áfram á bólgnum fótum í lok dags.
- Ekki OF háir. – þó þú viljir vera hærri en þú ert þá kemur sama vandamál upp, verkir munu valda því að þú gangir skringilega og þá er nú betra en að vera aðeins lægri heldur en álkuleg og “hávaxin”.
- Mjúkur botn. -Hafa skórnir mjúkan botn eða kemur þú innleggjum eða gelpúðum inn í þá til að þeir verði þægilegri? Harðir skór og tréklossar eru sérlega varasamir. Merki á borð við Chie Mihara og Ecco framleiða þægilega háhælaða skó.
- Ekki sleipir.-Passaðu að skórnir séu ekki sleipir, ef sólarnir eru alveg sléttir þá getur þú rispað þá með hníf eða lykli eða keypt sérstaka “límmiða” hjá næsta skósmið til að líma undir sólana.
- Stuðningur. – sumir hælaskór eru illa hannaðir og veita fætinum engan stuðning, það er ekki bara óþægilegt heldur hreinlega hættulegt, getur valdið ökklabrotum og tognunum, þetta á sérstaklega við um skó sem eru opnir eins og sandalar.
Ef þú gengur kjánalega á hælum þrátt fyrir að huga að þessum atriðum þá er ekkert annað að gera en að æfa sig heima og ganga skóna til. Sem unglingur var ég hokin í baki og var látin ganga um bein í baki með bók á höfðinu þangað til ég gerði það ósjálfrátt án þess að þurfa bók til áminningar, sama ráð gildir um háa hæla.
Hér að neðan er kennslumyndband sem kennir okkur að ganga rétt á hælum og svo myndband sem sýnir hvernig á EKKI að ganga.
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=3a141Kwmkjk[/youtube] [youtube]http://www.youtube.com/watch?v=mjQcpyYbgZU[/youtube]Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.