Hin árlega herrafatasýning Herrafataverzlunar Kormáks & Skjaldar verður haldin í Þjóðleikhúskjallaranum miðvikudaginn 20. nóvember. Húsið verður opnað stundvíslega klukkan 20:00 og sýningin hefst kl. 21:00.
Herrafatasýningin er, eins og flestir þekkja ekki, hefðbundin tískusýning heldur koma saman glaumgosar og önnur glæsimenni og sýna það helsta sem verslunin hefur uppá að bjóða frá vönduðum vörumerkjum utan úr heimi. Til skemmtunar verður boðið uppá tónlistaratriði og uppistand að vanda ásamt óvæntum uppákomum.
Ný herrafatalína Kormáks & Skjaldar verður kynnt en hún er samstarf Gunnars Hilmarssonar, Kormáks & Skjaldar og starfsmanna verslunarinnar. Línan í ár er sú stærsta og fjölbreyttasta hingað til og má í henni finna þriggja hluta tvíd jakkaföt, tvíneppt jakkaföt og staka jakka. Einnig er fjölbreytt úrval af skyrtum og yfirhöfnum ásamt slaufum fyrir unga sem aldna sem handgerðar eru af klæðskera verslunarinnar.
“Í ljósi reynslu fyrri ára hvetjum við fólk til þess að mæta stundvíslega,” segja aðstandendur sýningarinnar og hvetja um leið alla til að skemmta sér vel þetta kvöld.
Frítt inn og allir velkomnir meðan pláss leyfir.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.