Farmers Market var fyrsta sýning laugardagsins á Reykjavík Fashion Festival. Sýningin var öll hin glæsilegasta, þjóðleg og eilítið sveitaleg í takt við fatalínuna sem sýnd var.
Línan bar heitið Sunnudagur og í bakgrunn var sjarmerandi kirkja. Í upphafi og enda sýningar glumdu kirkjuklukkur en meðan fyrirsæturnar gengu hægum skrefum eftir pallinum ómaði lifandi tónlist undir og karlakór söng.
Lokaatriði sýningarinnar var svo sveitabrúðkaup, hvorki meira né minna. Brúðurin gekk inn tískupallinn í prjónuðum brúðarkjól, þrjár brúðarmeyjar gengu á undan íklæddar hvítum kjólum og prjónapeysum. Virkilega skemmtilegur endir á flottri sýningu.
Fatalínan var vel í takt við fyrri línur Farmers Market, jarðlitaður fatnaður, ullar- og prjónaflíkur áberandi og flíkurnar hlýlegar og þægilegar í sniðum. Heildaratriðið fær toppeinkunn. Fatnaðurinn, hárið, förðunin og öll sýningin í heild sinni var allt í stíl og einfaldlega stórglæsileg.
Ljósmyndarinn Birta Rán tók þessar glæsilegu myndir af sýningunni.
Sjáðu fleiri myndir hér fyrir neðan…
Eydís Halldórsdóttir er viðskiptafræðingur að mennt. Fædd og uppalin í Eyjum, hefur verið búsett í Reykjavík síðustu ár en býr nú í Barcelona þar sem hún stundar mastersnám og nýtur lífsins. Tíska og hönnun er hennar helsta áhugamál. Eydís er tvíburi samkvæmt speki stjarnanna, fædd í maí 1990. Mail: eydishalldors@gmail.com